Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stórir bólusetningardagar á Akureyri og í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Víðir Reynisson var í dag síðastur af þríeykinu góða til að fá bólusetningu. Hann mætti á svokallaðan opinn dag í Laugardagshöllinni eins og fjöldi annarra. Fólk sem fékk seinni sprautuna á Akureyri segist nú loksins geta farið að skipuleggja frí og ferðalög.

Það var stöðugur straumur fólks í höllina í morgun í bólusetningu með Janssen, en þá var hægt að fá sprautu án þess að skrá sig eða hafa fengið boðun. Svo mikil var aðsóknin að bóluefnið kláraðist um tíma.

„Alveg til fyrirmyndar að maður eigi kost á þessu“

„Ég er bara mjög spennt að fá bólusetningu loksins,“ sagði Hildur Ásmundardóttir, sem mætti í Laugardalshöll. „Ég var í námi erlendis þannig að ég missti af mínu tækifæri og ég er mjög glöð að komast núna.“ Erla Kjartansdóttir var áður búin að fá boðun í bólusetningu, en missti af því. „Já ég komst ekki um daginn, svo fékk ég boð aftur í dag. Mér finnst þetta bara alveg til fyrirmyndar að maður eigi kost á þessu.“

Víðir Reynisson síðastur af þríeykinu til að fá bólusetningu

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, var einn þeirra sem fékk Janssen-sprautu í höllinni dag og segir þetta stóran áfanga. Hann fékk COVID eins og flestir vita og hefur enn ekki fengið bragð- og lyktarskynið aftur. Hann bindur nú vonir við að bólusetningin geti hjálpað til með það. „Maður heyrir einhverjar sögur um að fólk hafi aftur fengið bragð- og lyktarskyn eftir þetta, það kemur í ljós. Ég er alveg rólegur yfir því, það kemur bara þegar það kemur.“ Bólusetning gengur vel í öllum landshlutum og yfir sextíu og fimm prósent íbúa eru fullbólusettir þar sem best lætur.

Geta loksins farið að skipuleggja frí og ferðalög

Á Akureyri var fólk mætt í biðröð fyrir klukkan níu í morgun, en þar var stór bólusetningardagur. Þarna var bæði fólk sem boðað var í seinni bólusetningu en einnig fólk á ferðalagi og aðrir sem ekki höfðu komist á tilsettum tíma. „Ég fleygði því nú fram einhvern tíma að um leið og það væri komið bóluefni í æðarnar þá væri maður farinn að plana eitthvað - og það er alveg þannig,“ sagði Ólöf Heiða Óskarsdóttir. Elín Halldórsdóttir tók undir það. „Maður er svona aðeins farinn að skoða erlendu síðurnar, ég skal alveg viðurkenna það. Þó ég sé ekki búin að bóka.“

Búið að vera stórt og krefjandi verkefni

Eftir strangar vaktir allt frá í vetur er áætlað að bólusetningum á Akureyri verði að mestu lokið í næstu viku. Inga Berglind Birgisdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá HSN á Akureyri, segir að byrjað hafi verið að bólusetja á slökkvistöðinni í febrúar eða byrjun mars. „Við höfum verið hér í hverri einustu viku, stundum tvisvar og stundum þrisvar, þannig að þetta eru að verða dálítið margir dagar. En þetta er ótrúlega ánægjulegt, þetta er búið að vera rosalega stórt verkefni en krefjandi líka. En ánægð fer ég héðan, algerlega.“