Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Pútín: Sjampanskoje hið eina sanna kampavín í Rússlandi

07.07.2021 - 07:42
Mynd með færslu
 Mynd: Joonas Kääriäinen
Brotist hefur út kampavínsstríð milli Rússa og Frakka. Það var Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, sem kastaði stríðshanskanum með yfirlýsingu um að hér eftir megi aðeins rússneskt „kampavín" bera það heiti en franskt kampavín skuli færast í hinn „óæðri flokk" freyðivína.

Kampavín - Champagne upp á frönsku og fjölmörg tungumál önnur - er freyðandi vín sem dregur nafn sitt af samnefndu héraði í Frakklandi og er þannig skilgreint hvort tveggja í orðabókum og reglugerðum Evrópusambandsins.

Pútín gefur hins vegar lítið fyrir þær skilgreiningar og lýsti því yfir á föstudag að einungis sovjetskoje sjampanskoje, freyðivín sem framleitt er í Rússlandi, megi bera kampavínsheitið.

Arfleifð Stalíns og Sovétríkjanna

Rekja má sjampanskoje-heitið til Sovét-tímans, nánar tiltekið aftur til fjórða áratugs síðustu aldar. Þá fyrirskipaði Jósef Stalín að vínbændur í syðstu héruðum Sovétríkjanna skyldu framleiða þennan lúxusdrykk í massavís, þannig að sovéskt verkafólk hefði efni á að njóta hans.

Sjampanskoje-heitið, segir í grein í belgíska blaðinu De Standaard, hefur verið þyrnir í augum Frakka allt frá falli Sovétríkjanna, enda leggja þeir allt kapp á að verja einkarétt sinn á heiti þessa lúxusvarnings.

Yfirvöld ríkjanna tveggja hafa sæst á ýmsar málamiðlanir í gegnum tíðina. Þannig samdist þeim um að Rússar mættu halda áfram að merkja freyðivín sitt heitinu sjampanskoje, en einungis með kyrillísku letri (Шампанское).

Macron lofaði ívilnun gegn því að Rússar hættu að nota Champagne, Cognac og Calvados

2016 tók Emmanuel Macron málið upp við rússnesk stjórnvöld enn á ný þegar hann var í heimsókn í Moskvu, þá í embætti efnahagsráðherra. Krafðist hann þess að rússneskir áfengisframleiðendur hættu að nota heitin Champagne, Cognac og Calvados yfir framleiðslu sína. Í staðinn myndu Frakkar gera sitt besta til að fá refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn Rússum aflétt. Þannig hljóðaði altént frétt rússneska vefritsins Gazeta.ru um þetta mál.

Kraumandi reiði meðal kampavínsbænda

Nú hafa franskir kampavínsframleiðendur hins vegar verið skikkaðir til að merkja flöskur sínar með orðinu „freyðivín,“ vilji þeir selja framleiðslu sína í Rússlandi og er ekki ofmælt að þeir froðufelli af réttlátri reiði yfir ósvífninni.

„Það er hneyksli að þeir ætli að svipta okkur réttinum til þess að nota okkar eigið heiti,“ segir í yfirlýsingu samtaka franskra kampavínsframleiðenda, Comité Champagne. „Þetta er erfðaréttur okkar og augasteinn.“ Hafa samtökin beint því til kampavínsbænda að selja ekki framleiðslu sína til Rússlands að svo komnu máli.

Lítil samstaða meðal kampavínsframleiðenda

Í frétt De Standaard segir að framleiðandi lúxusvínanna Moët & Chandon, Veuve Cliquot og Dom Perignon hafi brugðist við fljótt og hótað að hætta útflutningi til Rússlands. Ekki hafi þó liðið á löngu áður en annað hljóð kom í kampavínsstrokkinn og límmiðinn prentaður.

„Kampavínsframleiðendur Moët Hennesy hafa ætíð farið að gildandi lögum hvar sem þau stunda sín viðskipti, og munu því hefja sendingar [til Rússlands] á ný.“

Það er því allt útlit fyrir að kampavínsstríðinu sé þegar lokið - með fullnaðarsigri Pútíns og félaga hans, auðkýfingsins Júrís Kovaltsjuk, sem eignaðist hinar þekktu vínekrur Novy Svet og Massandra á Krímskaganum, fljótlega eftir að Rússar innlimuðu hann.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV