Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ísland stóðst COVID-storminn betur en flestar þjóðir

Bjarni Benediktsson á kynningu skýrslu OECD um íslenskt efnahagslíf
 Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir - Ljósmynd
Ísland stóð storminn sem fylgdi COVID-19 faraldrinum betur af sér en flestar aðrar þjóðir og viðsnúningur er framundan. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um íslenskt efnahagslíf. Fjármálaráðherra segir að þetta megi þakka góðri stöðu ríkisfjármála fyrir faraldur.

Skýrslan var kynnt í morgun. Þar sagði Alvaro S. Pereira, forstöðumaður skrifstofu efnahagsmála aðildarlanda  Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, að  Ísland hefði komið vel út úr faraldrinum miðað við önnur lönd og að viðsnúningur væri framundan.  Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að skýrslan sé jákvæð umsögn um þær efnahagsaðgerðir sem gripið hefur verið til vegna faraldursins.

„Þær hafi hjálpað til við að halda uppi einkaneyslu í íslenska hagkerfinu og eru liður í því að viðhalda sterkum kaupmætti heimilanna sem hefur reyndar vaxið í þessum heimsfaraldri,“ segir Bjarni.

„Við finnum fyrir því líka að hagkerfið er að taka við sér og vonandi getum við farið fram úr spám sem við höfum fengið fram til þessa um vöxt hagkerfisins vegna þess að það gefur okkur vonir um að atvinnuleysi fari hraðar niður.“

Meðal tillagna í skýrslunni er að fækka leyfisskyldum störfum og auka þannig aðgengi að störfum. Fólk verði hvatt til náms í greinum þar sem framboð vinnuafls hefur verið takmarkað og starfsnám verði styrkt. Þá þurfi að laga skattastyrkjakerfið betur að minni nýsköpunarfyrirtækjum og stuðla að samstarfi rannsóknarstofnana og atvinnulífsins.

Höfðu byggt upp viðnámsþrótt

Bjarni segir að reiknað sé með miklum vexti útflutningsgreina og þar verði horft til nýsköpunar og smærri fyrirtækja. Skýrslan staðfesti að góð staða ríkisfjármála fyrir faraldurinn hafi skipt sköpum. 

„Við höfðum byggt upp viðnámsþrótt í hagkerfinu til þess að gera það sem við erum að gera, til þess að beita ríkisfjármálunum af fullum krafti. Síðan þarf að smíða aðgerðir sem ná tilætluðum árangri og það hefur okkur líka tekist. Við þurfum að taka þetta með okkur inn í framtíðina og byggja að nýju upp viðnámsþrótt eftir því sem áhrifa þessa faraldurs hættir að gæta.“

Meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni er staða Íslands í loftslagsmálum og þar kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda er meiri hér en að meðaltali í löndum OECD og að það sé mest vegna iðnaðar.  Lagt er til að lagðir verði kolefnisskattar eða aðrir loftslagsskattar á atvinnulífið út frá losun og að fjármagn verði lagt í þær aðgerðir sem vænlegastar eru til árangurs . 

„Þessu held ég að við hljótum að vera sammála,“ segir Bjarni. „Við þurfum að læra af eigin reynslu, við eigum líka að læra af reynslu annarra og þessi ríkisstjórn hefur verið með þennan málaflokk í sérstökum forgangi og við höfum stóraukið fjármagn en einnig uppfært aðgerðaáætlanir.“