Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Forseti Haítís ráðinn af dögum

07.07.2021 - 10:37
epa09328106 (FILE) - Haitian President Jovenel Moise speaks to the press in the gardens of the National Palace, in Port-au-Prince, Haiti, 15 October 2019 (reissued 07 July 2021). According to a statement by Haiti's interim Prime Minister Claude Joseph cited by media, Haiti's President Jovenel Moise has allegedly been killed by a group of unidentified people who had entered his private residence.  EPA-EFE/Orlando Barría
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Jovenel Moïse, forseti Haítís, var myrtur á heimili sínu í nótt. Forsetafrúin særðist í árásinni og var flutt á sjúkrahús. Claude Joseph forsætisráðherra kveðst hafa tekið stjórn landsins í sínar hendur.

Það var Claude Joseph, forsætisráðherra til bráðabirgða, sem tilkynnti um morðið. Að hans sögn réðst hópur útlendinga sem töluðu ensku og spænsku inn á heimilið um klukkan eitt í nótt að staðartíma og myrti Moïse forseta. Joseph hvatti landsmenn til að sýna stillingu. Lögreglu og her landsins hefði verið falið að tryggja öryggi þeirra.

Allt hefur logað í illdeilum á Haítí um langt skeið. Jovenel Moïse stjórnaði landinu með tilskipunum eftir að þingkosningum var frestað árið 2018 vegna ágreinings, meðal annars um hvenær kjörtímabili forsetans lyki. Þá hefur kosningum um nýja stjórnarskrá tvívegis verið frestað vegna COVID-19 faraldursins. Til stendur að kjósa um hana í september.

Andstæðingar forsetans höfðu krafist þess að hann segði af sér vegna spillingarmála auk þess sem þeir drógu í efa að hann hefði umboð til að gegna embættinu. Á síðustu fjórum árum hafa sjö manns gegnt embætti forsætisráðherra. Til stóð að Claude Joseph léti af embætti síðar í þessari viku. 

Hvergi í Ameríkuríkjum er fátækt meiri en á Haítí. Vopnaðir hópar hafa fært sig upp á skaftið að undanförnu með mannránum til að krefjast lausnargjalds. Þá hafa náttúruhamfarir haft mikil áhrif á líf landsmanna, svo sem fellibyljir og jarðskjálftar, þar á meðal einn sem reið yfir árið 2010 og varð um 200 þúsund manns að bana.

Fréttin hefur verið uppfærð.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV