
Erfitt að keppa við erlendar efnisveitur
Þrjú fyrirtæki gerðu tilboð í sýningarréttinn á ensku úrvalsdeildinni í fótbolta samkvæmt heimildum fréttastofu en auk Símans voru það Sýn og streymisveitan Viaplay.
Síðast þegar enski boltinn var boðinn út árið 2018 gerði Sýn tilboð upp á einn komma einn milljarð en þá var tilboð Símans hins vegar hærra, að því er fram kom í fjölmiðlum á þeim tíma.
Magnús Ragnarsson sjónvarpsstjóri Símans vill ekki gefa upp kaupverðið nú,
„Það var einhver hækkun á réttinum já. Við þurftum að verja réttinn að ég held fyrir Viaplay,“ segir Magnús.
Viaplay hefur verið að gera sig gildandi hér á landi að undanförnu og hefur meðal annars tryggt sér sýningarréttinn á leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá 2022 til 2028. Fyrirtækið er einnig með sýningarréttinn á enska boltanum á Norðurlöndunum, í Hollandi, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum.
Magnús segir erfitt fyrir íslensk fjölmiðlafyrirtæki að keppa við fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði.
„Það hefur gríðarlega mikil áhrif. Við erum að keppa núna við þessu alþjóðlegu stóru fyrirtæki. Við erum að keppa við Netflix, við erum að keppa við Disney+ og við erum að keppa við Viaplay. Og í rauninni hjá þessum aðilum, rekstur skiptir þá mjög litlu máli. Það er bara markaðshlutdeild og hversu marga áskrifendur þeir fá. Netflix er búið að vera í taprekstri í áratugi. Og eina sem hreyfir verðið á fyrirtækinu hjá þeim er hvort spár um fjölgun áskrifenda standast. Þannig að það verður mjög gaman að sjá hvort að samkeppnisyfirvöld ætla eitthvað að láta sig þessi mál varða. Af því að þetta eru aðilar sem koma bara inn á markaðinn. Þeim er næstum því sama hvað þeir borga. Þeir ætla bara að ná hlutdeild,“ segir Magnús.