Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Dönsku blöðin: „Þið töpuðuð en unnuð hjörtu okkar“

epa09330491 Danish fans react after Denmark's defeat during the public viewing of the UEFA EURO 2020 semi final between England and Denmark in Kildeparken in Aalborg, Denmark, 07 July 2021.  EPA-EFE/HENNING BAGGER  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX

Dönsku blöðin: „Þið töpuðuð en unnuð hjörtu okkar“

07.07.2021 - 22:13
Dönsku blöðin fara lofsamlegum orðum um frammistöðu danska liðsins sem tapaði fyrir Englendingum á Wembley eftir framlengingu í undanúrslitum Evrópumótsins. „Ævintýrið búið,“ sögðu Berlingske og Politiken.

Evrópumótið hefur verið sannkölluð rússíbanareið hjá danska liðinu.

Christian Eriksen, besti leikmaður liðsins, fór í hjartastopp í fyrsta leiknum gegn Finnum. Og þótt liðið sé vel mannað, með leikmönnum sem spila með mörgum stærstu liðum Evrópu, áttu fæstir vonir á því að Danir yrðu í undanúrslitum mótsins eftir þetta áfall.  

Og umfjöllun dönsku blaðanna er eiginlega á einn veg; að þótt leikurinn hafi tapast hafi danska liðið unnið stóran sigur. „Við vinnum ekki EM í þetta sinn en við höfum unnið stóran sigur engu að síður,“ segir í umfjöllun Politiken um leikinn í kvöld.  „Evrópumótsins verður minnst fyrir Christian Eriksen og hvernig liðið sameinaði dönsku þjóðina og kannski fyrir sigur Englands.“

„Úti er ævintýri,“ segir Berlingske í umfjöllun sinni um leikinn.  „Danska liðið er ástæðan fyrir öllum veislunum sem haldnar hafa verið á götum úti um allt land síðustu vikur.“

„Þið gáfuð allt,“ segir Ekstablaðið á vef sínum þar sem sérfræðingar blaðsins velta því upp hvort Englendingar hafi átt að fá víti. „Þið töpuðuð en unnuð hjörtu okkar,“ segir í fyrirsögn á vef BT.

Þar er því jafnframt velt upp hvort dómari leiksins hafi gert mistök með því að dæma vítaspyrnu. „Þetta voru mikil mistök, þetta var ekki vítaspyrna,“ sagði Brian Laudrup, fyrrverandi landsliðsmaður og sérfræðingur DR.