Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Auðvelt að falsa skilríkin en erfitt að sannprófa þau

07.07.2021 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar V - RÚV
Stafrænu ökuskírteinin sem tekin voru í notkun síðasta sumar og eru víða notuð sem persónuskilríki valda starfsfólki Vínbúðanna miklum vandræðum. Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að sífellt verði meira um að fölsuðum rafrænum ökuskírteinum sé framvísað í Vínbúðunum.

Vaxandi vandamál við skilríkjaeftirlit 

„Við höfum orðið vör við að það er talsvert um það að þegar við flettum upp kennitölum á þessum skírteinum að þá finnast þær ekki og þá ályktum við sem svo að skírteinin séu fölsuð. Þetta er vaxandi vandamál hjá okkur við skilríkjaeftirlit,“ segir Sigrún Ósk. 

Auðvelt virðist vera að falsa skírteinin en það er meðal annars gert með smáforritum. Hins vegar reynist starfsfólki erfitt að sannprófa þau. 

Nær ómögulegt að sjá að um fölsun sé að ræða

„Við höfum verið í vandræðum með að sannreyna skírteinin. Það virðist vera mjög auðvelt að fá þeim breytt, þá er búið að breyta ártali og kennitölu. Það er nánast ómögulegt að sjá að um fölsun er að ræða, “ segir Sigrún Ósk. 

Það séu því ekki einungis skjáskot heldur fölsuð rafræn skírteini sem hægt er að vista í svokallað stafrænt veski sem er að finna á snjallsímum. Sigrún Ósk segir jafnframt að erfitt sé að krefja viðskiptavini um að ganga með hefðbundnu persónuskilríkin.

Skírteinaskanni í vinnslu

Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands, segir að ákveðið verklag sé til staðar og skuli starfsfólk vera upplýst um sannprófun skírteina kjósi atvinnurekendur að taka stafræna ökuskírteininu sem gildu persónuskilríki. En verið sé að vinna að leið til að skanna skírteinin sem eigi eftir að einfalda sannprófunina frekar.