Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vegi lokað af og til við Kárahnjúkastíflu í sumar

06.07.2021 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Veginum yfir Kárahnjúkastíflu verður lokað af og til í sumar vegna vinnu við að fyrirbyggja grjóthrun á veginn úr Fremri-Kárahnjúk. Þetta hefur áhrif á þá sem vilja fá sér rúnt og baða sig í heitum fossi í Laugarvalladal eða skoða Hafrahvammagljúfur. Á meðan lokun varir er ófært í þær dásemdir upp úr Fljótsdal en alltaf hægt að komast Jökuldalsmegin.

Lokað var síðasta föstudag og verður lokað einnig á föstudaginn kemur frá 9 til 18. Skilti verða sett upp bæði við Bessastaði í Fljótsdal og Fiskidalsháls á Jökuldal þegar lokað er. Þeim sem ætla að skipuleggja ferðir fram í tímann er bent á að kanna með tilkynningar á vefjum Landsvirkjunar og Vegagerðarinnar eða í síma 1717. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV