Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Metþátttaka í Dyrfjallahlaupi - vatnsbrúsi skylda

Mynd með færslu
 Mynd: Helga Björg

Metþátttaka í Dyrfjallahlaupi - vatnsbrúsi skylda

06.07.2021 - 12:15
Algjör metþátttaka er í Dyrfjallahlaupinu sem ræst verður á laugardag, en um 450 hafa skráð sig. Spáð er miklum hita og hægviðri og fær enginn að hlaupa af stað nema vatnsbrúsi sé með í för.

Ný hlaupaleið og styttri leið í boði

„Það eru kannski tveir þættir sem eiga heiðurinn að þessu og það er að við breyttum hlaupaleiðinni. Fórum úr Stórurðinni sem við höfum alltaf verið að hlaupa í og förum núna yfir á Víknaslóðir. Í fyrsta sinn bættum við líka við styttri vegalengd. Við höfum alltaf verið að fara sem sagt 24 kílómetra í Stórurðina. En færum okkur núna í 24 kílómetra í gegnum Breiðuvík og Brúnavík og bætum svo við einni 12 kílómetra leið sem við förum í gegnum Hofstrandarskarðið og förum niður í Brúnavík.  Báðar leiðirnar sameinast svo neðst niðri í Brúnavík við fjöruborðið þar og enda svo báðar við Hafnarhólmann heima á Borgarfirði,“ segir Olgeir Pétursson, verkefnastjóri Dyrfjallahlaupsins.

Þjónusta við hlaupara takmörkuð til að uppfylla kröfur ITRA

Um helmingur þátttakenda ætlar að fara í lengra hlaupið; þar á meðal margir af sterkustu utanvegahlaupurum landsins. Spáð er um 20 stiga hita og hægviðri sem er mjög krefjandi hlaupaveður. Hlaupið er nú í fyrsta sinn undir hatti alþjóðlegra hlaupasamtaka, ITRA, og því eru takmörk á hvað skipuleggjendur mega veita hlaupurum mikla þjónustu. „Á 24 kílómetra leiðinni eru tvö stopp þar sem þú getur fyllt á vatnsbirgðir. Og svo verðum við auðvitað með búnað fyrir þá sem eru verst staddir eins og þrúgusykur og mat og allskonar. En þjónustan á leiðinni er frekar lítil en við gerum á móti þá kröfu fyrir hlauparann að hann sé með næringu með sér og sérstaklega vatn. Vatnsbrúsi verður algjör skylda núna í ár og það kemst enginn af stað í hlaupið nema vera með einhvern smá vökva með sér,“ segir Olgeir.

Rétt er að taka fram að 40-50 manna lið Björgunarsveitarinnar Sveinunga vaktar brautina og þá sem eru að hlaupa.

Stuð á Bogganum fram á nótt

Fjölskyldur og stuðningsmenn geta tekið á móti hlaupurum við Hafnarhúsið í Hafnarhólma og verður margt í boði á Borgarfirði eystra. „Í bænum sjálfum og náttúrlega í Hafnarhólmanum líka er hægt að skoða lundann á meðan þú bíður. Kíkja á Lundabúðina og í Hafnarhúsið. Svo einnig um um kvöldið verðum við með ótrúlega flott hlaðborð hjá þeim vetrum í Já sæll í Fjarðarborg. Svo breytist veitingahúsið þar í tónleikasal stuttu eftir og þar verða svo tónleikar með Jóni Jónssyni og Friðriki Dór seinna um kvöldið,“ segir Olgeir Pétursson, verkefnastjóri Dyrfjallahlaupsins.

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Mikil þátttaka í erfiðu Dyrfjallahlaupi