Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ákvörðun ekki verið tekin um Sundabrú eða Sundagöng

06.07.2021 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Stefnt er að því að framkvæmdir við Sundabraut hefjist árið 2026 og að brautin verði tekin í notkun árið 2031. Sundabraut verður lögð alla leið á Kjalarnes í einni samfelldri framkvæmd. Þó er ekki ljóst hvort Kleppsvík verði brúuð eða undir hana grafin göng. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík undirrituðu í dag.

Sundabrú eða Sundabraut enn til skoðunar

Alþjóðleg hönnunarsamkeppni verður haldin um útlit Sundabrúar verði hún fyrir valinu en ekki hefur verið ákveðið hvort  Kleppsvík verði brúuð eða undir hana grafin göng.

Ráðist verður í félagshagfræðilega greiningu á þverun víkurinnar og að henni lokinni verður hafist handa við að undirbúa breytingar á aðalskipulagi borgarinnar sem feli í sér endanlegt leiðarval Sundabrautar.

„Sundabraut mun dreifa álagi, leysa umferðarhnúta og verður gríðarleg samgöngubót fyrir alla þá sem ferðast til og frá höfuðborgarsvæðinu – og fyrir alla ferðamáta. Brúin verður aðgengileg fyrir gangandi og hjólandi og verður kennileiti borgarinnar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson við undirritun yfirlýsingarinnar. Hann sagði tímann góðan til að ráðast í opinberar framkvæmdir sem sköpuðu atvinnu og ykju hagvöxt í landinu.

Borgarstjóri fagnaði einnig tímamótunum. „Það er mikilvægt að leiðarval og undirbúningur Sundabrautar sé í traustum og góðum farvegi og að verkefnið sé unnið í víðtæku samráði. Þessi yfirlýsing tryggir það og undirstrikar mikilvægi samráðs við íbúa og hagsmunaaðila í næstu skrefum. Sundagöng og Sundabrú eru áfram megin valkostirnir,“ sagði Dagur.

Sundabrú 14 milljörðum ódýrari lausn

Í skýrslu starfshóps um legu Sundabrautar, sem kynnt var í vetur, kom fram að Sundabrú væri um 14 milljarða króna ódýrari kostur en Sundagöng. Jarðgöng muni hafa bæði minni sjónræn áhrif og minni áhrif á hafnarstarfsemi á framkvæmdatíma. Sundabrú hefði jákvæð áhrif á heildarakstur og tímasparnað umferðar á höfuðborgarsvæðinu.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið

Í yfirlýsingunni er staðfest að Sundabraut verði fjármögnuð með veggjöldum og er ekki gert ráð fyrir fjármögnun framkvæmdarinnar úr ríkissjóði. Gjaldtaka mun ekki hefjast fyrr en framkvæmdum er lokið og mun að hámarki standa í 30 ár.

Hér að neðan má sjá myndband Reykjavíkurborgar sem sýnir líklega legu Sundabrautar. Myndbandið miðast við að Sundabrú verði fyrir valinu frekar en Sundagöng.

Andri Magnús Eysteinsson