Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir tíu þúsund farþegar í fyrsta sinn í fimmtán mánuði

05.07.2021 - 09:33
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV
Yfir tíu þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll á laugardaginn. 10.580 ferðamenn fóru þá um völlinn 3. júlí og var það í fyrsta sinn í rúma fimmtán mánuði sem svo margir fóru þar um á einum degi. Síðast var það 13.mars 2020, eða degi áður en ferðabann var sett á til Bandaríkjanna.

Tíu dögum síðar, þann 23.mars 2020, lokaðist tengistöðin milli Evrópu og Norður-Ameríku og gildir lokunin enn. Þó geta fullbólusettir Bandaríkjamenn eða þeir sem hafa vottorð um fyrri sýkingu komið takmarkanalaust til Íslands. En sú undanþága gildir fyrir alla ferðamenn sem hingað koma. 

Minnst tuttugu flugfélög með ferðir í sumar

Í tilkynningu frá Isavia kemur fram að minnst tuttugu flugfélög verði með ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli í sumar. Þar má nefna flugferðir nýja flugfélagsins Play og fjölgun ferða hjá Icelandair.  Bandaríska flugfélagið United Airlines hóf jafnframt að fljúga til Chicago í Bandaríkjunum í síðustu viku. 

Búast má við hægari afgreiðslu á næstu dögum

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, segir tímana framundan bjarta eftir erfiða tíma heimsfaraldursins í rekstri flugfélaga og flugvalla. Ferðamenn megi búast við hægari afgreiðslu og auknum önnum í flugstöðinni næstu daga í takt við fjölgandi umferð þegar takmarkanir eru enn í gildi á landamærunum. 

„Það skiptir miklu máli fyrir þróunina á komandi vetri hvernig tekst til í flugrekstri og þjónustu við ferðamenn á Íslandi í júlí og ágúst,“ segir Guðmundur Daði.