
Mengunarmistur yfir borginni
Þorsteinn Jóhannson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir há gildi hafa mælst fyrr í dag á höfuðborgarsvæðinu, bæði fyrir brennisteinsdíoxíð og eins fyrir fínt svifryk.
Þá birtust rauð gildi, sem merkja að loft sé óhollt, á mælitækjum í Hvalfirði.
„Það var nokkuð hár toppur sem mældist á mælistöðinni í gröf í Hvalfirði sem stóriðjan á Grundartanga rekur, klukkan 15 fór það í 860 míkrógrömm sem er ansi hátt,“ sagði Þorsteinn.
Þorsteinn segir að hér sé um gamlan gosmökk að ræða sem er ekki að koma beint frá gosstöðvunum heldur hefur að líkindum farið í vestur á haf út fyrir þrem til fjórum dögum , snúið við og komi aftur yfir landið. Í millitíðinni verði ákveðin efnahvörf sem breyti brennisteinsgasi í brennisteinsagnir. Mengunargildi séu farin að falla í Hvalfirði en þó gætu þau haldist áfram há. Nokkuð hefur dregið úr mengun í Hvalfirði en hennar gæti þó gætt áfram.