Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Gróðrarstía andlegrar veiklunar“

05.07.2021 - 21:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hópur manna sem vistaður var á vöggustofum og á fleiri opinberum uppeldisstofnunum á vegum Reykjavíkurborgar, eftir miðbik síðustu aldar, hyggjast leita réttar þeirra sem þar dvöldu. Þeir segja mikilvægt fyrir eftirlifandi börn að viðurkennt sé að vistun þeirra á vöggustofum olli þeim tjóni og hafa óskað eftir fundi með borgarstjóra seinna í vikunni. Stofurnar hafi verið eins og gróðrarstía andlegrar veiklunar.

Fimmmenningarnir Árni H. Kristjánsson, Fjölnir Geir Bragason, Hrafn Jökulsson, Viðar Eggertsson og Tómas V. Albertsson hafa farið þess á leit að borgarstjórn hafi forgöngu um að koma á fót teymi sérfræðinga til að rannsaka starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á árunum 1949-1973. Þeir voru allir vistaðir á vöggustofunum og fleiri opinberum uppeldisstofnunum.

Tugir barna voru vistuð á vöggustofunum á hverju ári þau ár sem þær voru starfræktar svo börnin sem þar dvöldu skipta hundruðum. Um var að ræða börn ungra, fátækra, einhleypra eða veikra mæðra sem álitið var að gætu ekki alið önn fyrir börnum sínum. 

Fljótlega fór að bera á harðri gagnrýni á starfsemina í borgarstjórn og á síðum dagblaðanna. Gagnrýnin snéri að ófullnægjandi þroskaskilyrðum og því haldið fram að börnin sköðuðust andlega vegna uppeldisstefnu sem var við lýði.
Í bréfi sem fimmenningarnir hafa semt frá sér segir að húsakynni vöggustofanna hafi líktist sjúkrahúsum. Allt innanhúss málað hvítt, húsgögn fá, veggir auðir og allt dauðhreinsað. Skipulag starfseminnar vélrænt og örvun á vitsmuna- og tilfinningaþroska barnanna  ekki á dagskrá. Hún miðaðist eingöngu við að sinna líkamlegum þörfum barnanna.

Sömu reglur, um tómlæti gagnvart börnunum, giltu fyrir foreldra í heimsóknum enda máttu þau aðeins horfa börn sín í gegnum gler á fyrirframákveðnum tímum. Uppeldisstefnan leiddi til þess að börn voru markvisst svipt ást, snertingu og örvun eða því mikilvægasta í andlegu þroskaferli þeirra. Fordómar hafi ríkt gagnvart mæðrum og gefið í skyn að sumar þeirra væru svo lauslátar að þær bæru með sér óværu og sýkla. 

Mennirnir hafa fengið fund með Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra á miðvikudaginn.

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV