Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Afganskir hermenn flýja til nágrannaríkja

05.07.2021 - 17:26
epa07692033 Afghan security officials and private military patrol on Lashkargah-Kandahar Highway, also known as 601 Highway, after reports that Taliban have taken control of parts of the highway, in Helmand, Afghanistan, 03 July 2019. according to media reports, After nearly 17 years of armed conflict, the government in Kabul controls around 55 percent of the total territory of Afghanistan while the Taliban control around 11 percent, with the rest being disputed.  EPA-EFE/WATAN YAR
Afganskir stjórnarhermenn í eftirlitsferð. Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir eitt þúsund afganskir stjórnarhermenn flúðu í nótt til Tadsíkistans eftir bardaga við sveitir talibana. Þeir hafa gert nokkrar harðar árásir í norðurhluta landsins að undanförnu, á sama tíma og Bandaríkjaher og fjölþjóðalið Atlantshafsbandalagsins fer úr landi eftir hátt í tuttugu ára hersetu.

Öryggisráð Tadsíkistans sagði í yfirlýsingu að afgönsku hermennirnir hefðu einfaldlega verið að bjarga lífi sínu með því að flýja yfir landamærin. Þeir hefðu átt við ofurefli að etja. Þeim var leyft að forða sér yfir á tadsískt yfirráðasvæði í ljósi vináttu ríkjanna.

Í yfirlýsingunni kom einnig fram að talibanar hefðu náð fullum yfirráðum í fimm umdæmum í Badakhshan-héraði sem liggur að landamærum ríkjanna. Fregnir herma að þeir hafi lagt undir sig tugi landsvæða til viðbótar á undanförnum vikum. Þá eru þeir sagðir hafa lagt undir sig að minnsta kosti eina varðstöð á landamærum Afganistans og Pakistans.

Stjórnarhermenn hafa ekki eingöngu þurft að forða sér til Tadsíkistans til að bjarga lífinu, heldur einnig Pakistans og Úsbekistans. Miðað við uppgang talibana er allt eins búist við að stjórnarherinn gefist upp eftir að síðustu erlendu hermennirnir halda á brott. Ashraf Ghani forseti vísar því á bug. Öryggissveitir landsins séu nógu öflugar til að halda uppreisnarsveitum í skefjum. 

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV