Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þetta ár hefur verið hörmulegt fyrir börnin mín

04.07.2021 - 20:15
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Svetlana Tikanovskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, hefur ekki getað verið í neinum samskiptum við eiginmann sinn þá síðustu fjórtán mánuði sem hann hefur setið í fangelsi. Fimm ára dóttir þeirra spyr á hverju kvöldi hvenær pabbi hennar komi aftur heim. 

Tikanovskayu bárust hótanir eftir forsetakosningar í fyrra og hún flýði Hvíta-Rússland. Eiginmaður hennar, Sergei Tikanovsky, hugðist bjóða sig fram til forseta en var, eins og aðrir frambjóðendur, handtekinn og situr enn inni. „Ég þurfti að fara frá Hvíta-Rússlandi. Ég bý í Litáen og get ekkert talað við Sergei nema með skilaboðum í gegnum lögmann,“ sagði Tikanovskaya í viðtali við fréttastofu. 

Tikanovskaya var hér á landi fyrir helgi í boði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra. Hún hitti ráðherra, þingmenn og fleiri og greindi frá stöðunni í heimalandinu. Þar stjórnar Lukasjenko enn með harðri hendi og fjöldi fólks sem styður hann ekki er læst inni í fangelsum landsins. Tikanovskaya segir að það sama eigi við um ástvini þeirra, þeir geti með engu móti haft samband inn í fangelsin. „Við getum ekki átt samskipti nema í gegnum lögfræðing og það er útilokað að senda viðkvæm skilaboð því KGB hlerar alla og fólk er elt um allt.“

Eiginmanni hennar er gefið að sök að hafa ætlað að skipuleggja uppþot og að stefna öryggi ríkisins í hættu. Hans gæti beðið fimmtán ára dómur. „Þessi ríkisstjórn hefur þegar rænt ári af ævi hans, ári af frelsi hans og heilsu. Þúsundir manna eins og Sergei sitja í fangelsi, sem er harmleikur fyrir alla. Þetta ár hefur verið hörmulegt fyrir börnin mín. Fimm ára dóttir mín spyr á hverju kvöldi hvenær pabbi komi heim. Við horfum á myndbönd af Sergei því ung börn gleyma fólki fljótt fólki. Við gerum þetta til að hún muni eftir föður sínum.“

epa09263052 Belarussian opposition politician Svetlana Tikhanovskaya (C) raises a picture of her arrested husband Sergei Tikhanovsky, while other spectators hold photos of arrested persons at the premiere of 'Courage' during the 71st Berlin International Film Festival (Berlinale) Summer Special at the Museumsinsel (Museum Island) outdoor cinema in Berlin, Germany, 11 June 2021. The movie is presented in the festival's Berlinale Special section. Due to the coronavirus COVID-19 pandemic, the 71st Berlinale is taking place in two stages: a virtual Industry Event, that was held from 01 to 05 March 2021, and the Summer Special for the general public running from 09 to 20 June 2021 as an outdoor-only event.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN / POOL
 Mynd: EPA

Sonur hjónanna er 11 ára og veit að pabbi hans er í fangelsi. „Í hans huga er Sergei hetja sem berst gegn einræðisherra, gegn glæpamanni, þótt hann sé í fangelsi. Á sama tíma vil ég að börnin mín eigi æsku og þurfi ekki að glíma við þessar sorglegu hugsanir. En ég verð að gera allt sem ég get til þess að þau hitti pabba sinn aftur eins fljótt og hægt er.“

Staðan enn mjög slæm í Hvíta-Rússlandi

Fólk sem sýnir stjórnvöldum minnstu mótstöðu er handtekið og því ríkir ótti í landinu, að sögn Tikanvoskayu. Skemmst er að minnast þess þegar áhöfn flugvél Ryan Air var neydd til að lenda henni í Minsk í maí til þess að lögregla gæti handtekið blaðamanninn Roman Protasevits. Hún segir að ógnarstjórnin hafi færst á annað stig með lendingunni. Lukasjenko hafi verið að kanna hve langt hann gæti gengið og hvernig Evrópuríki og Bandaríkin myndu bregðast við. 

„Við erum þakklát fyrir viðbrögð erlendra ríkja. Við vorum fullvissuð um að þrýstingi yrði áfram beitt gegn Lukasjenko þar til síðasti pólitíski fanginn hefur verið látinn laus og þar til kosningar hafa verið skipulagðar,“ segir hún. 

Segir alveg skýrt að þetta sé barátta við stjórnvöld innanlands

Fréttir frá Hvíta-Rússlandi hafa verið áberandi í fjölmiðlum í Evrópu og víðar síðan forsetakosningarnar fóru fram í ágúst. Hún segir að það hafi komið henni á óvart að þurfa stundum að útskýra fyrir fólki að Hvíta-Rússland sé aðskilið ríki frá Rússlandi, sem eigi sitt eigið tungumál og menningu. Þá segir hún alveg skýrt að barátta stjórnarandstæðinganna snúist ekki um það hverjum ríkið ætli að tengjast í framtíðinni, heldur sé þetta innanríkisbarátta gegn forsetanum, sem hafi ekki umboð landsmanna. Hvít-Rússar um allan heim hafi verið ötulir við að kynna málstaðinn. 

Hvernig sér Tikanovskaya fyrir sér að Hvíta-Rússland verði eftir fimm ár? „Að það verði dásamlegt, velmegandi og öruggt ríki þar sem allir sýna ábyrgð. Þar sem fólkið okkar leggur hart að sér við að koma að gagni því við eigum marga bandamenn, viðskiptasambönd víða, bæði til austurs og vesturs og að við höfum góð stjórnvöld, að fólk njóti virðingar og fyrst og fremst frá forseta og ríkisstjórn. Ég sé fyrir mér land þar sem fólkið er hamingjusamt.“