Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

,,Rauð ferðamennska" eykst í Kína

04.07.2021 - 13:05
Mynd: EPA-EFE / EPA
Mikil aukning hefur orðið á svokallaðri ,,rauðri ferðamennsku" í Kína í tengslum við 100 ára afmæli kommúnistaflokksins. Kínverjar ferðast til staða sem tengdir eru sögu flokksins, margir þessara ferðamanna eru fólk á eftirlaunum. Yfirvöld hafa hvatt landsmenn til að heimsækja staði sem tengjast lykilatburðum í sögu kínverska kommúnistaflokksins.

Tíundi hluti ferðaþjónustunnar

Um tíundi hluti ferðaþjónustunnar í Kína tengist þessari tegund ferðamennsku að því er ferðamálaráðuneytið í Peking segir. Sænska ríkisútvarpið ræddi við eftirlaunaþega sem er félagi í kommúnistaflokknum, sem sagðist hafa verið hrærður þegar hann stóð fyrir framan styttu af Maó-tse-tung. Maó var formaður flokksins í áratugi og helsti byltingarleiðtogi Kína. Styttan er þar sem flokkurinn hafði bækistöðvar á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Austrið er rautt

Ósjaldan hljómar Austrið er rautt, en söngurinn var nánast eins og þjóðsöngur Kína í menningarbyltingunni sem Maó hratt af stað árið 1966. Breska tímaritið Economist segir í umfjöllun um rauðu ferðamennskuna að núverandi leiðtogar kínverska kommúnistaflokksins vilji ekki að sagan sé skoðuð með gagnrýnum augum og umræða um skelfilegar afleiðingar menningarbyltingarinnar sé bönnuð.

,,Stóra stökkið fram á við"

Þá er heldur ekki minnst á að allt að 30 milljónir létust í hinu svokallaða ,,Stóra stökki fram á við," sem leiddi til sennilega verstu hungursneyðar í sögu mannkyns, þetta var um 1960. Rana Mitter, prófessor í kínverskri sögu við Oxford-háskóla í Bretlandi, segir að flokksforystunni sé í mun að opinber skilningur á sögunni verði ríkjandi, slíkt staðfesti lögmæti flokksins og sé siðferðileg réttlæting.

Miklar efnahagslegar framfarir

Hvað sem líður sögunni þá hafa hundruð milljóna Kínverja losnað úr örbirgð á undanförnum árum, miklar efnahagslegar framfarir hafa orðið og einnig á öðrum sviðum, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðfesti í liðinni viku að malaríu hefði verið útrýmt í Kína, en hún varð milljónum að aldurtila fyrir nokkrum áratugum.

Alræði kommúnistaflokksins

En efnahagslegum og öðrum framförum hafa ekki fylgt breytingar á alræði flokksins. Flokkurinn komst til valda 1949 er hann bar sigur úr býtum í borgarastyrjöld og eftir áratuga innanlandsátök. Hlutirnir í Kína fara að breytast eftir dauða Maós og þegar Deng Xiaoping var valdamesti maður landsins var efnahagsstefnunni gjörbreytt. Núverandi stjórn undir forystu Xi Jingping forseta hefur hert tökin innanlands og engin andstaða er liðin og því fá íbúar Hong Kong að kenna á þessa dagana. 

Tökin hert í Hong Kong

Að undanförnu hafa kínversk yfirvöld hert mjög tökin í Hong Kong, sem var bresk nýlenda til 1997. Þegar Kínverjar tóku aftur við Hong Kong lofaði stjórnin í Peking að virða sérstöðu Hong Kong. En eftir mótmæli og óeirðir í fyrra voru sett ný og ströng lög um öryggi. Síðan hafa stjórnvöld þrengt mjög að tjáningarfrelsi, handtekið fjölda lýðræðissinna og múlbundið þing borgarinnar.

Daily Apple lokað

Dagblaðinu Apple Daily, sem gagnrýndi stjórnvöld, var lokað í síðustu viku og það var beint tilefni áskorunar til Kínverja um fjölmiðla- og tjáningarfrelsi sem ritstjórar fjögurra áhrifamikilla norrænna blaða birta í blöðum sínum í dag á 100 ára afmæli kínverska kommúnistaflokksins. Þetta eru Aftenposten, Dagens Nyheter, Helsingin Sanomat og danska Politiken. En stjórnvöld í Peking líta á alla gagnrýni á framferði sitt í Hong Kong sem afskipti af innanríkismálum sem ekki séu liðin. Xi Jinping forseti sagði í ræðu á 100 ára afmæli flokksins að tekið yrði af hörku á móti öllum tilraunum erlendra ríkja til að kúga Kínverja.