Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nóttin eins og stórviðburður hjá löggu og slökkviliði

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Næturvaktin var eins og stórviðburður væri í bænum, segir í færslu varðstjóra slökkviliðsins um verkefni síðasta sólarhringinn. Farið var í 122 sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu og þar af voru 67 á næturvaktinni, flest vegna atvika í miðbænum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði sömuleiðis í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt.

„Farið nú varlega”

Hjá slökkviliðinu og sjúkraflutningum var farið í 54 forgangsútköll, sömuleiðis langflest í miðbænum, sem gerir nokkuð mörg á hverjum klukkutíma. 
Útköll dælubíla voru sex, og meðal þeirra verkefna sem þurfti að sinna voru svifdrekaslys, reyklosun eftir eld sem kviknaði út frá hleðslutæki, eldur utandyra og börn sem læstust inni og þurftu aðstoð. 
„Sem sagt mjög erilsamur sólahringur,” segir í færslu slökkviliðisins. „Farið nú varlega og eigið góðan dag.”

„Það er búið að vera gríðarlega mikið að gera síðasta sólahring og næturvaktin var eins og stórviðburður væri í bænum.”
- Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Líkamsárásir, áfengisdauði og ölvunarakstur

Og ekki var nóttin rólegri hjá lögreglunni. Í tilkynningu þaðan er málaskráin útlistuð, en tilkynnt var um tvær líkamsárásir, og þá þriðju þar sem ráðist var á dyravörð. Töluvert var um tilkynningar vegna áfengisdauðra einstaklinga sem þurftu á hjálp að halda, allir í 101, auk þess sem nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um ölvunarakstur. Einn var handtekinn vegna þjófnaðar á hóteli, bifreið var ekið á vegg, annarri inn í garð, og sömuleiðis var tilkynnt um eignaspjöll á gröfu. 

Dæmi um verkefni slökkviliðis í gær og nótt

  • Svifdrekaslys
  • Eldur innandyra
  • Eldur utandyra
  • Börn læst inni

Dæmi um verkefni lögreglu í gær og nótt

  • Líkamsárásir
  • Áfengisdautt fólk
  • Ölvunarakstur
  • Þjófnaður
  • Bíl ekið á vegg
  • Bíl ekið inn í garð

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður