Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Maður er bara á bláum ljósum út um allan bæ”

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Aðstoðarvarðstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins man ekki eftir jafn annasamri nótt í Reykjavík og þeirri síðustu. Mikil ölvun, líkamsárásir, slys og óhöpp voru helstu verkefnin, þessa aðra helgi eftir afléttingu samkomutakmarkana. Þetta er önnur helgin þar sem engar samkomutakmarkanir eru í gildi, en sú fyrsta eftir mánaðarmót og útborgun.

Næturvaktin var eins og stórviðburður væri í bænum, sagði í Facebook-færslu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í morgun um verkefni næturinnar. Slökkviliðið fór í 122 sjúkraflutninga, þar af voru 67 á næturvaktinni, flest vegna atvika í miðbænum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði sömuleiðis í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Tilkynnt var um tvær líkamsárásir, það var ráðist á dyravörð og nokkuð margir voru teknir vegna gruns um ölvunarakstur. Einn keyrði á vegg og annar inn í garð. 

Helgin gjörsamlega kreisí

25 manns voru á vakt hjá slökkviliðinu í nótt og Bjarni Ingimarsson aðstoðarvarðstjóri tók við í morgun. Öllum Covid-samkomutakmörkunum var aflétt fyrir rúmri viku, og djammið þar af leiðandi komið á fullt.   

„En þetta er fyrsta helgin þar sem er alveg svona brjálað að gera. Það var aðeins rólegra um síðustu helgi, en þessi helgi var bara alveg kreisí. Ég man ekki eftir svona annasamri nótt, sérstaklega í forgangsflutningum þar sem maður er bara á bláum ljósum út um allan bæ,” segir Bjarni. 

Stór hluti útkallanna var tengt djamminu í miðbænum.

„Það var mikið um pústra og þess háttar þar sem þurfti aðstoð eftir slagsmál og annað. Svo sem einhver föll og slys. Svo eru almenn veikindi sem koma inn í þetta líka. En þetta er ansi stór hluti af þessu líka forgangsverkefni, það er að segja verkefni þar sem fólk er talið í mikilli hættu og við þurfum að komast sem fyrst á staðinn. Eins og meðvitundarleysi og annað.” 

Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Ragnar Santos - RÚV

95 prósent vegna sjúkraflutninga

Töluvert var um áfengisdautt fólk í miðbænum sem lögreglan hafði afskipti af, en slökkviliðið sinnir því sömuleiðis. 

„Ef það er hægt að vekja fólk þá er því komið heim og lögregla sér um það. En mikið af þessu er flutt á slysadeildina til eftirfylgni.” 

Slökkviliðið sinnir bæði sínum lögbundnu verkefnum og svo sjúkraflutningum í verktöku fyrir ríkið. 

„Sjúkraflutningarnir eru svona 95 prósent af vinnunni. Svo þurfum við að eiga mannskap á slökkvibílana líka og öfugt. Þannig að um leið og allir sjúkrabílarnir eru farnir út hjá okkur þá er orðið ansi lítið eftir hjá okkur á slökkvibílana,” segir Bjarni.