Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Iða feminískra strauma í Listasafni Árnesinga

Mynd: Aðsend / Ólöf Gerður Sigfúsdóttir

Iða feminískra strauma í Listasafni Árnesinga

04.07.2021 - 14:00

Höfundar

Þrjár sumarsýningar standa nú yfir í Listasafni Árnesinga. Þær tengja samtímalistina við líðandi stund og þá bylgju femínisma sem nú flæðir fram í samfélagi okkar, segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, gagnrýnandi.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Frá árinu 2001 hefur verið starfrækt listasafn í Hveragerði, Listasafn Árnesinga. Þótt 20 ár séu ekki langur tími í samhengi safna, þá var þetta samt sem áður fyrsta opinbera listasafnið sem opið var almenningi utan höfuðborgarsvæðisins á sínum tíma. Í dag hefur safnið fest sig rækilega í sessi sem lítið og áhugavert listasafn á landsbyggðinni, en því hefur tekist að halda úti öflugri sýningardagskrá sem bæði ræktar tengslin við nærumhverfið um leið og það færir okkur alþjóðlega strauma úr myndlistinni. Safnið hlaut Safnaverðlaunin árið 2018, verðskuldaða viðurkenningu sem er veitt annað hvert ár safni sem þykir skara fram úr og vera til eftirbreytni.

Um þessar mundir standa yfir í safninu þrjár athyglisverðar sumarsýningar, sem skoða má sem eina samhangandi heild, þótt hver um sig sé skipulögð sem sjálfstæð eining. Fyrirferðamest er sýning á verkum Rósku, sem ber yfirskriftina „Áhrif og andagift“ í sýningarstjórn Ástríðar Magnúsdóttur. Sýningin ber yfirbragð þess að vera lítil yfirlitssýning þótt hún gefi sig í raun ekki úr fyrir að vera slík, en það úrval verka sem hér má sjá gefur ágætis innsýn í fjölbreyttan og afkastamikinn feril Rósku. Sýningin státar af verkum sem unnin eru í ólíka miðla, svo sem teikningar, klippiverk, málverk, baráttuplaköt, gjörninga og skissubækur, sem ýmist verið fengin að láni úr einkaeigu eða safnkosti annarra opinberra safna. Róska, eða Ragnhildur Óskarsdóttir eins og hún hét, var einn af helstu listamönnum þjóðarinnar á seinni hluta síðustu aldar, en hún lést aðeins 56 ára gömul árið 1996. Verkin á sýningunni hér bera vott um persónulega en í senn pólitíska nálgun Rósku, hún var ögrandi, framúrstefnuleg og djörf fyrir sinn samtíma, og notaði listina markvisst til að hafa áhrif á samfélagið, hvort sem það var hér á landi eða þar sem hún var búsett hverju sinni, hvort sem það var í Róm, Reykjavík, Prag eða París.

Það er vel til fundið hjá safninu að setja verk Rósku á dagskrá akkúrat núna, ekki eingöngu vegna þess að heil 20 áru eru liðin síðan síðast var sett upp yfirlitssýning á verkum hennar, þá í Nýlistasafninu, heldur einnig og öllu fremur vegna þess tíðaranda sem verk hennar tala inn í um þessar mundir. Sýningin nú í Listasafni Árnesinga er þannig gott tækifæri til að kynnast þessum áhugaverða en dálítið gleymda listamanni, eða endurnýja kynnin við hana. Sýningin kallar á meira af Rósku og gerir það að verkum að maður vill fá að skyggnast betur inn í feril þessarar merku listakonu og aktívista í samhengi við strauma í feminískri myndlist dagsins í dag.

Þessir feminísku straumar fylgja manni svo áfram eftir því sem maður fikrar sig lengra inn eftir safninu, þar sem einnig er fjallað um hugarheima og aðstæður kvenna út frá persónulegri reynslu en með sterkum skírskotunum í hið ytra skilyrðandi samfélag. Þannig er búið að umbreyta næsta sýningarsal í stóra umlykjandi innsetningu, sem líta má á sem eins konar millirými eða jafnvel andrými milli hinna tveggja sýninganna. Við setjumst inn í mjúkan klefa sem fóðraður hefur verið með blóðrauðu efni í hólf og gólf, eins konar innra líffæri þar sem hægt er að taka inn myndbandsverk listakonunnar Önnu Kolfinnu Kuran, sem hún kallar Yfirtöku. Hér streymir kvenorkan fram með hugmyndafræði yfirtökunnar, sem þó er friðsæl og látlaus í þessu tilfelli, þar sem ólíkir kvenlíkamar mynda samstöðu með söng og kóreografíu í samtali við rýmið sem verkið er staðsett í. Anna Kolfinna hefur hér fengið til liðs við sig konur úr nærsamfélaginu, alls konar konur á ólíkum aldri, af ólíkum uppruna, rauðklæddar konur með fjölbreytta líkama sem kyrja saman og flæða um rýmið samstilltar og áreynslulausar.

Úr þessu millirými göngum svo áfram yfir í þriðja og síðasta rýmið í þessum feminsíka boga sem myndar rammann utan um sýningarnar þrjár í safninu. Sýningin hér ber yfirskriftina „Iðustreymi“ og státar af myndbandsverki Gjörningaklúbbsins, ljósmyndaverkum Katrínar Elvarsdóttur, saumuðum teikningum Kristínar Gunnlaugsdóttur, klippiverkum Söru Björnsdóttur og ljóðum Elísabetar Jökulsdóttur. Salurinn sjálfur ber með sér yfirbragð einhverskonar kapellu, ekki einöngu vegna lögunar hans sem markast af arkitektúr safnsins, heldur einnig vegna hins tregafulla óms sem streymir úr verki Gjörningaklúbbsins, Aqua Maria, sem og upphengisins í salnum, þar sem verk Kristínar raðast eins og helgimyndir á gaflvegginn. Þá bjóða klippiverk Söru, ljósmyndir Katrínar og ljóðlist Elísabetar upp á innri íhugun, þar sem spurningum er velt upp um hvað það er að vera manneskja, kona, listamaður. Samsafn verkanna allra vekur upp tilfinningu fyrir melankólíu, ósýnileika og jafnvel bugun, en um leið einhverskonar heilun og valdeflingu. Rétt eins og í verkum Rósku má hér greina ummerki um mótspyrnu, umbreytingar, endurtekningu og baráttuanda, í bland við léttleika og styrk. Í þessu samhengi er áhugavert að velta fyrir sér merkingu orðsins „iðustreymi“, en iðustreymi er hugtak yfir það fyrirbæri sem myndast þegar vatn streymir yfir mörk eða hindranir og myndar þannig hvirfla. Með iðunni eykst orkan, vatnið streymir á meiri hraða og aukinn kraftur leysist úr læðingi. Iðustreymi er því ágætis myndlíking fyrir eðlisfræði listarinnar og vekur upp hugleiðingar um hvað það er sem knýr myndlistina áfram, hvaða öfl liggja að baki hennar og hvaða hindrandir verða til þess að afl hennar verður meira en ella.

Sýningarnar þrjár stillast prýðilega vel saman og hvetja áhorfandanna til að velta fyrir sér sýnileika kvenna, hvernig konur taka sér pláss og hvernig þær öðlast rödd. Sýningunum fylgir vandleg og vel hönnuð sýningarskrá, þar sem verkunum og höfundum þeirra eru gerð góð skil. En umfram allt tengja þær samtímalistina við líðandi stund og þá bylgju femínisma sem nú flæðir fram í samfélagi okkar, þótt sú tenging gæti að vísu verið enn sterkari með þátttöku yngri og meira ögrandi listakvenna í anda Rósku sjálfrar. Engu að síður er safnið hér með áhugavert framlag til samfélagsumræðunnar og fingraför nýs safnstjóra smám saman að framkallast, sem augljóst er að ætlar að halda uppi þeim metnaði og góða orðstír sem Listasafn Árnesinga hefur áunnið sér undanfarin ár.

 

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Sköpunarferlið að baki hversdagslegra hluta

Pistlar

Framlag listanna til fræðilegrar orðræðu

Pistlar

Listrænt, lýðræðislegt og skipulagslegt afrek