Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjögur látin í skógareldum á Kýpur

04.07.2021 - 12:27
epa09321433 A view of the smoke emitted by a fire in the mountains, in Larnaca region, Cyprus, 03 July 2021. The European Commission has mobilized the rescEU system, which tackles natural disasters, to Cyprus after huge fires broke out in Limassol district and spread to Larnaca communities.  EPA-EFE/KATIA CHRISTODOULOU
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjórir hafa farist í miklum skógareldum sem hafa geisað á Kýpur síðan í gær. Síðustu daga hefur verið um fjörutíu stiga hiti.

Eldurinn fór að breiðast út seinni part dags í gær í Troodos fjöllum. Heimili hafa brunnið til kaldra kola og fimmtíu og fimm ferkílómetrar lands. Forseti Kýpur segir að þetta séu mestu hörmungar í landinu síðan Tyrkir réðust þangað inn árið 1974, tóku yfir hluta eyjunnar og myrtu fjölda manns. Búið er að ná tökum á eldunum en forsetinn sagði hættu á að hann geti farið aftur úr böndunum.  

„Strax var brugðist við eldunum og viðbragðssveitir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir manntjón. Því miður tókst það ekki og tilkynnt hefur verið að fólk hafi farist,“ sagði Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, í viðtali við fjölmiðla í morgun. AP fréttastofan greinir frá. 

Fjórir hafa fundist látnir. Fólkið var frá Egyptalandi og þekkti ekki vel til á svæðinu. Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið handtekinn, grunaður um að hafa kveikt eldinn. Allt að fjörutíu stiga hiti hefur verið á sunnanverðri eyjunni undanfarna daga og lítið hefur rignt síðan um miðjan apríl. Nokkur þorp voru rýmd vegna eldanna. Evrópusambandið og stjórnvöld í Ísrael sendu flugvélar til aðstoðar við slökkvistarfið. 
 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir