Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Eldingar valda tugum gróðurelda í Kanada

04.07.2021 - 05:48
epa09316835 A handout satellite image made available by the National Aeronautics and Space Administration (NASA) shows the McKay Creek fire (L), the Sparks Lake fire (R) and smaller fire (C, bottom), visible just south of the town of Lytton, British Columbia (BC), Canada, 30 June 2021 (issued 02 July 2021). More than 40 wildfires were burning across the Canadian province by the end of June 2021, according to data released by the BC Wildfire Service. A heatwave has hit Canada and north-west USA sending temperatures to dangerous highs.  EPA-EFE/NASA HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - NASA
Yfir 170 gróðureldar loga nú í Bresku Kólumbíu í vestanverðu Kanada. Tugir þeirra hafa kviknað undanfarna tvo daga, þar af margir af völdum eldinga. CBC fréttastofan hefur eftir Cliff Chapman, slökkviliðsstjóra í Bresku Kólumbíu, að um tólf þúsund eldingar hafi lostið niður á föstudag. Margar þeirra hjuggu nærri þéttbýlum svæðum. 

Mikill háþrýstingur er yfir Kanada um þessar mundir. Hiti hefur farið í hæstu hæðir, allt upp í 49,6 gráður í smábænum Lytton á þriðjudag. Tveimur dögum síðar brann bærinn nánast til kaldra kola í gróðureldum. Miklir þurrkar fylgja hitanum, sem mynda kjöraðstæður fyrir gróðurelda. 

Kanadískir hermenn eru í viðbragðsstöðu ef rýma þarf þorp í landinu. Þá verða herflugvélar sendar til þess að aðstoða við slökkvistörf. 

Alls hafa um þúsund manns orði að flýja heimili sín vegna eldanna í Bresku Kólumbíu til þessa. Margra er saknað að sögn AFP fréttastofunnar. Embætti yfirlæknis í Bresku Kólumbíu segir yfir 700 skyndileg dauðsföll hafa verið tilkynnt í fylkinu undanfarna viku. Það er þrefalt á við sama tímabil að jafnaði undanfarin ár.