Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

UEFA varar styrktaraðila við notkun regnbogafána

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock

UEFA varar styrktaraðila við notkun regnbogafána

03.07.2021 - 08:06
Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, biður auglýsendur á Evrópumótinu um að sleppa því að hafa regnbogafána hinsegin fólks á auglýsingaskiltum sínum í Baku og Sankti Pétursborg. Sambandið lýsir áhyggjum af afleiðingum þess vegna laga í Rússlandi og Aserbaísjan.

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen greinir frá þessu í yfirlýsingu í gær og hefur eftir tilkynningu frá UEFA.  Talsmaður sambandsins sagði í samtali við AFP fréttastofuna að UEFA sýni skilaboðum um umburðarlyndi og virðingu fullan stuðning. Styrktaraðilar sambandsins verði þó einnig að fara að landslögum þar sem við á. 

Samtök samkynhneigðra í Þýskalandi eru fokreið yfir þessu útspili UEFA. AFP hefur eftir Alfonso Pantisano, talsmanni samtakanna, að með þessu sé UEFA ekki einungis að svíkja hinsegin fólk í Aserbaísjan og Rússlandi, heldur Evrópu allri. Enn sýni sambandið af sér algjöra hræsni með gjörðum sínum. 

Fyrr á Evrópumótinu neitaði UEFA borgaryfirvöldum í München að lýsa Allianz-leikvanginn í regnbogalitunum til stuðnings hinsegin fólks fyrir leik Þýskalands gegn Ungverjalandi. Ungverska þingið samþykkti í síðasta mánuði lög sem banna það sem stjórnvöld kalla áróður fyrir samkynhneigð og transfólki í skólum landsins. Lögin voru samþykkt þrátt fyrir mikla gagnrýni mannréttindasamtaka og stjórnarandstöðuflokka.

Volkswagen segist í yfirlýsingu sinni miður sín yfir beiðni UEFA. Fyrirtækið ætli þó áfram að nota regnbogalitina í auglýsingum sínum á leikvöngum í Róm og Lundúnum það sem eftir lifir móts. 

Tékkland og Danmörk eigast við í átta liða úrslitum mótsins í Baku í dag. 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Andstaða virðist aukast gegn hinsegin fólki í Evrópu

Evrópa

Fordæma umdeilda lagasetningu í Ungverjalandi

Stjórnmál

Harðar deilur um lýsingu á Allianz Arena