Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tíu hæða blokk á Flórída talin ótrygg og því rýmd

03.07.2021 - 19:11
Mynd: EPA-EFE / EPA
Tíu hæða fjölbýlishús á Flórída var rýmt í gær eftir að í ljós kom að það hefði verið metið ótryggt til búsetu fyrir fáeinum mánuðum. Ástand allra fjölbýlishúsa sem eru eldri en fjörutíu ára var kannað eftir að eitt slíkt hrundi í síðustu viku. 

Hundrað fimmtíu og sex íbúðir eru í húsinu sem var rýmt í gær. Það var byggt árið 1972. Íbúarnir fengu tvo tíma til að fara - eftir að skipun barst frá borgaryfirvöldum í Norður-Miami. Byggingin er í um átta kílómetra fjarlægð frá þeirri sem hrundi fyrir rúmri viku í bænum Surfside í suðurhluta Flórída.

Eftir hrun blokkarinnar í síðustu viku var ákveðið að endurskoða ástand allra bygginga á svæðinu sem eru fjörutíu ára eða eldri til að kanna hvort það væri reglum samkvæmt. Í janúar var gerð skýrsla um húsið sem var rýmt í gær. Í henni kemur fram að byggingin sé ótrygg, bæði vegna burðarþols og rafmagns. Blokkin verður mannlaus þar til ástand hennar hefur verið skoðað betur. „Það versta var að frétta að húsfélagið hafði vitað þetta síðan í janúar, að blokkin var ekki örugg. Að verkfræðingur lýst bygginguna óörugga en samt var okkur ekkert sagt. Borgin komst að þessu í dag,“ segir Harold Dauphin, íbúi í blokkinni.

Leit stendur enn yfir í rústum hússins í bænum Surfside sem hrundi fyrir rúmri viku. Þar hafa tuttugu og tveir fundist látnir og hundrað tuttugu og sex er enn saknað.