Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ný aðferð til sjálfsupphafningar

Mynd: wikimedia / Una Útgáfuhús

Ný aðferð til sjálfsupphafningar

03.07.2021 - 10:00

Höfundar

Með því að láta ástkonu sína segja eigin sjálfsævisögu losnar skáldkonan undan ábyrgðinni af sjálfshólinu sem gegnumsýrir textann, skrifar Gauti Kristmannsson, gagnrýnandi, um Sjálfsævisögu Alice B. Toklas eftir Gertrude Stein.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Síðla á áttunda áratugnum fór ég að sjá sænska bíómynd, gamanmynd. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, og ekki heldur að ég hafi á þeim tíma verið haldinn fordómum og vantrú á að Svíar gætu nokkru sinni gert gamanmynd sem brosandi væri að. En þeim tókst það; myndin um ævintýri Picassos er með þeim fyndnari sem ég hef nokkru sinni séð, svo fyndin og eftirminnileg að ég þori ekki að horfa á hana aftur. En þótt myndin fjallaði að nafninu til um málarann fræga, þá voru í henni tvær aðrar persónur, sem voru jafnvel enn minnisstæðari: Gertrude Stein og lagskona hennar, Alice B. Toklas. Ég sá á dögunum við lestur svokallaðrar sjálfsævisögu þeirrar síðarnefndu að húmorinn gæti verið kominn úr þeirri bók, sem nú er nýkomin út á íslensku í fyrsta sinn.

Gertrude Stein er að einhverju leyti einn af minnisvörðum módernismans, stundum kölluð móðir hans, þótt verk hennar hafi ekki náð sömu frægð og verk samtímamanna á borð við Eliot, Joyce og Woolf. Hún var samt einhvers konar miðlari hugmynda um vitundarstreymi, sem hún kann að hafa fengið pata af í gegnum kynni sín af William James, bróður bandaríska skáldsins Henrys James, sálfræðingi sem leiðbeindi henni í námi og gerðu þau tilraunir með það sem nefnt hefur verið ósjálfráð skrif. Sjálf taldi hún að Henry James hefði verið með þeim fyrstu að skrifa svona módernískan prósa, en ég nefni þetta aðeins til að staðsetja hana á rófi bókmenntasögu tuttugustu aldar.

Sjálfsævisagan leynir hins vegar á sér; hún er vissulega aðgengileg og auðlesnari en önnur verk eftir Gertrude Stein, en hún er einmitt eftir hana, en ekki Alice B. Toklas og kemur það fram í blálokin. Fram að því er sagan sögð í fyrstu persónu Toklas, en fjallar að mestu um Gertrude Stein og lítið sem ekkert um Toklas. Þetta gerir lesturinn enn kómískari, því sagan lýkur miklu lofsorði á Gertrude Stein, ekki síst sem rithöfund og mikið rætt um skrif hennar og verkaskiptingu þeirra stallna við að koma verkunum út. Eins og fram kemur í greinargóðum eftirmála þýðanda, Tinnu Bjarkar Ómarsdóttur, var markmiðið með þessari „sjálfsævisögu“ að kynna Gertrude Stein fyrir lesendum sem sýnt höfðu ritverkum hennar lítinn áhuga, vegna þess að þau voru óvenjuleg og sérkennilega skrifuð. Þessi bók náði markmiðum sínum að nokkru leyti, hún seldist vel og er að hluta til grundvöllurinn að goðsögninni Gertrude Stein sem hún er orðin. Hins vegar lesa fáir bækur hennar enn þann dag í dag, svo það takmark náðist ekki.

En þótt mikið sé fjallað um Stein í bókinni, er talað um margt annað fólk, sérlega frægt fólk á listasviðinu, málara og rithöfunda sem síðar öðluðust heimsfrægð. Stein bjó nefnilega í París við upphaf síðustu aldar og borgin sú var sannarlega suðupottur í menningu og listum, og margt af því nýjasta og áhugaverðasta sauð upp úr honum. Það eru fjölmargir palladómar um þessa frægu menn, og konur þeirra líka, og mannlýsingarnar eru bæði skemmtilegar og fyndnar; það er heldur ekkert dregið undan, finnst manni, og sagan segir að sum viðfangsefnin hafi orðið reið og sár; Hemingway, til að mynda, var að hefna sín á henni fram á efri ár, löngu eftir að hún var öll. Þessi innsýn í listamannalíf fyrsta þriðjungs tuttugustu aldar er því afar áhugaverð. Við fáum að sjá manneskjurnar á bak við goðsagnirnar sem þær eru orðnar núna.

Þótt aðgengileg sé og auðlesin er bókin samt dálítið sérkennilega stíluð og það virkar vel í þýðingu Tinnu Bjarkar, sem nær stílnum nánast hnökralaust; þó hefði útgáfan átt að splæsa í einn lokayfirlestur til viðbótar til að vinsa út nokkur smáatriði; samt vil ég hrósa Unu útgáfuhúsi fyrir þetta framtak að gefa út þessa sígildu samtímaklassík þótt komin sé hátt á níræðisaldur. Þessi bók tekur einmitt saman upphaf þeirra tíma sem enn lifa í listvitund okkar; nítjánda öldin er orðin töluvert fjarlægari, finnst mér, kannski ekki síst fyrir tilstilli þessara listamanna sem þá voru að vaxa til þroska og áhrifa.

Þrátt fyrir aðgengileika sinn brýtur textinn samt nokkrar reglur hefðbundinnar frásagnar. Farið er úr einu í annað í tíma og atburðum, á köflum er þetta einhvern veginn eins og Facebook-veggur manneskju sem dugleg er að skrá færslur um menn og málefni. Þetta skiptir samt engu máli og vel getur verið að við samfélagsmiðlaskólaðar manneskju eigum bara auðveldara með að lesa svona texta; ekki skaðar að margar færslurnar fjalla um fólk sem við þekkjum úr lista- og bókmenntasögunni. Undir liggur svo einhver óræð kímni sem heldur lesandanum föstum, þessum sem hér talar að minnsta kosti.

Sess Gertrude Stein í bókmennta- og listasögunni er óræður, en hún var áreiðanlega frumkvöðull, kona í karlaheimi sem talaði við þá eins og jafningja; öllum sem vildu var ljóst að hún var í ástarsambandi við aðra konu og það var ekkert gert úr því, hún umgekkst þá sem voru avant-garde í listinni og var oft meðal þeirra fyrstu að kaupa verk eftir þá, áður en þeir urðu frægir. Með þessari bók býr hún raunar til nýja aðferð sjálfsupphafningar, lætur ástkonu sína segja sína eigin sjálfsævisögu og losnar þannig undan ábyrgðinni af sjálfshólinu sem gegnumsýrir textann. Það er þó ekki yfirdrifið, hún segir fremur söguna frá hennar sjónarhóli, það sem Gertrude Stein fannst um hitt og þetta, hugmyndum hennar um bókmenntasköpun og síðast en ekki síst frá skoðunum hennar á öðru fólki. Örfá dæmi: „Apollinaire var alkunnur fyrir nísku sína og átti erfitt með [að] láta peninga af hendi, sama hversu lág upphæðin var. Þetta var allt ákaflega hrífandi.“ Fyrst nefnir hún fremur neikvætt skapgerðareinkenni og segir það svo vera „ákaflega hrífandi“. Annað um Hemingway: „Einu sinni þegar Hemingway skrifaði að Gertrude Stein vissi alltaf hvað væri gott við verk Cézannes, horfði hún á hann og sagði, Hemingway, ummæli eru ekki bókmenntir.“ Maður getur ímyndað sér hvað hinum skjallandi Hemingway hafi þótt um þetta svar.

En hvað sem fólki finnst eða finnst ekki um Gertrude Stein, þá er þessi bók kjörin til að komast að því hvað er á bak við goðsögnina um hana, goðsögnina sem hún bjó að einhverju leyti til með henni, goðsögn sem er svo mögnuð að hún skýtur upp kollinum áratugum síðar í sænskri gamanmynd og gerir hana fyndna.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Fornfrægir textar fá á sig hrikalegri mynd

Bókmenntir

Frumraun sem lítur alls ekkert út eins og frumraun

Bókmenntir

Stormsveipur af texta