Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ferðaþjónustan greiði gjald í Geldingadölum

Eldgosið í Geldingadölum í Fagradalsfjalli 23. mars 2021.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landeigendur á gosstöðvunum í Geldingadölum hyggjast fara fram á gjaldtöku frá þeim ferðaþjónustuaðilum sem selja ferðir og þjónustu á svæðinu. Formaður landeigendafélagsins segir að í almannarétti felist ekki leyfi til að vera í atvinnustarfsemi á annara manna landi.

Fyrr í vikunni var sett lögbann á lendingar þyrlna Norðurflugs að beiðni eigenda landsins Hrauns, eftir að Norðurflug neitaði að greiða lendingargjald. Þegar hefur verið samið við eitt þyrlufyrirtæki um að lenda á landinu. Fram hefur komið í fréttum að gjaldið fyrir hverja lendingu sé 20.000, en Sigurður Guðjón Gíslason formaður Landeigendafélags Hrauns vill ekki staðfesta það.

„Þetta er náttúrulega bara  trúnaðarmál og samningur við hvern og einn. Menn geta bara horft á rétt lendingargjöld í Reykjavík og annars staðar og þetta er auðvitað mjög eftirsótt að fá að lenda á þessum hólum þarna í kringum þetta. Ég myndi ekki segja að við værum að taka stóran hluta af því sem menn eru að ætla sér að ná út úr þessu. Þessi tala er bara einhver tala sem var kastað fram í einhverri tilboðsgerð.“

Þið hafið gert samning við eitt fyrirtæki. Eruð þið að ræða við fleiri? „Já, við erum búin að vera í kontakt við þá alla. Það hefur bara gengið vel og ég á ekki von á öðru, svo framarlega sem menn ætla sér að halda áfram að lenda þarna. Það má fljúga yfir eins og menn vilja en almannarétturinn takmarkast við að þú getir farið þarna frjáls og labbað að þessu. En inni í almannaréttinum er ekki réttur fyrirtækja til að vera í atvinnustarfsemi á annarra manna löndum.“

Sigurður segir að fylgst verði með lendingum þyrlna meðal annars með vefmyndavélum og að til standi að taka upp gjaldtöku frá annarri ferðaþjónustu en þyrluferðum. Fljótlega verði svæðið deiliskipulagt, ný bílastæði lögð og sérstakt aðgengi lagt upp fjallið fyrir sérleyfishafa. 

„Þá er hægt að fara að ræða framtíðarmálin við einhverja samstarfsaðila í framhaldinu. Þannig að það er klárlega í gangi, sama hvort hættir að gjósa eða ekki þá held ég að þetta verði áhugaverður staður til að heimsækja næstu árin,“ segir Sigurður.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir