Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Áríðandi að fá sem flestar tilkynningar um loftsteininn

03.07.2021 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Prófessor í stjörnufræði segir líklegast að drunurnar yfir Suðurlandinu í gærkvöld hafi verið nokkuð stór loftsteinn sem brann yfir Íslandi. Hann segir mikilvægt að skrásetja allar tilkynningar til að greina ferð hans. 216 vígahnettir hafa verið skráðir síðustu 80 ár. Drunur sem minntu á herþotu, flugelda, eldgos, jarðskjálfta og aurskriðu dundu yfir suðurlandið í gærkvöld.

Flest kom til greina

Hljóðið brast á um klukkan korter í ellefu í gærkvöld. Fólk líkti drununum við mjög öflugar þrumur, sumir sáu bjarma á himninum, íbúar á Suðurnesjum hugsuðu eðlilega til eldgossins eða herþota. Einhverjir töldu þetta vera öfluga áramótabombu, sprengingu, byssuskot, aurskriðu eða jarðskjálfta. 

Vísindamenn Veðurstofunnar lögðust í rannsóknir í morgunsárið til að átta sig á hvað það var sem gerðist þarna. Óróinn er mjög ólíkur jarðskjálfta og því fór nokkur vinna í að finna upptökin. Eftir nokkra leit fannst stuttur en greinanlegur púls á jarðskjálftamælum á Suðurlandi klukkan um korter í ellefu. Líklegasta skýringin er að loftsteinn hafi brunnið hratt upp í andrúmslofti og við það hafi bæði orðið nokkur blossi og svokölluð þrýstibylgja í andrúmslofti, m.ö.o. innhljóðsbylgja. Fyrstu mælingar eru í grennd við Þingvelli og er líklegasta staðsetning upptakanna ofan við það svæði. Talið er að steinninn hafi sprungið í um 20 kílómetra hæð og mögulegt er að brot úr honum hafi fallið til jarðar. Hann gæti hafa verið fáeinir metrar í þvermál. 

Öllum líkindum stór

Þorsteinn Sæmundsson, prófessor í stjörnufræði, heyrði sjálfur drunurnar, en datt þó ekki í hug að þarna væri loftsteinn á ferðinni, enda svo margt annað sem fyrst kemur upp í hugann. 

„Þetta sem gerðist í gær, sem er að öllum líkindum stór loftsteinn, það minnir töluvert á loftstein sem sást 1. ágúst 1976, af öllu landinu. Og þá var svo bjart yfir öllu landinu, nú var það ekki. Þannig að ég veit ekki hversu nákvæmar lýsingar maður getur fengið, en það er mjög áríðandi að fá lýsingar frá sem flestum,” segir Þorsteinn. 

216 vígahnettir á 80 árum

Samkvæmt almanaki Háskóla Íslands hafa borist tilkynningar um 216 vígahnetti yfir Íslandi - sú fyrsta árið 1941 yfir Nónöxl, nærri Fagurhólsmýri. Honum var lýst sem tveimur hægfara rauðum ljóshnöttum með hala. 

„Einstaka sinnum koma brot úr loftsteinum til jarðar, en því miður hefur aldrei neinn fundist hér á landi. En það er vegna þess að grjótið hér er dökkt og svipar því sem loftsteinar eru venjulega,” segir Þorsteinn.

„Stærri loftsteinar hafa valdið hreinum ósköpum hér á jörðinni, það vita menn. Þessi frægi loftsteinn sem átti þátt í að útrýma risaeðlunum fyrir 65 milljón árum, hann er náttúrulega alveg ofboðslega stór.”