Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir vald Lukasjenko byggjast á ofbeldi

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, hefur tapað þeirri ímynd að vera sterkur leiðtogi og með hjálp alþjóðasamfélagsins er hægt að koma á lýðræði, að segir Svetlana Tikanovskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar þar í landi. Hún fundaði með ráðamönnum á Íslandi í dag.

Tikanovskaya er á landinu í boði utanríkisráðherra. Þau funduðu í morgun. Einnig hitti hún Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, utanríkismálanefnd Alþingis og Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra. 

Utanríkisráðherra hét áframhaldandi stuðningi íslenskra stjórnvalda við stjórnarandstöðuna í Hvíta-Rússlandi sem berst fyrir því að haldnar verði réttlátar kosningar. Tikanovskaya segir stuðning Íslands miklu skipta. „Það gildir einu hversu lítið og langt í burtu landið er. Þegar ríki hefur pólitískan vilja getur það áorkað mjög miklu og Ísland er sönnun þess því síðan í ágúst tjáði Ísland sig mikið um ástandið,“ sagði Tikanovskaya í viðtali við fréttastofu í dag. 

Býr í Litáen í dag með börnum sínum

Mikil mótmæli brutust út eftir forsetakosningar í fyrrasumar og síðan þá hafa yfir þrjátíu þúsund manns verið handtekin, mörg fyrir mótmæli. Eiginmaður Tikanovskayu hugðist bjóða sig fram til forseta en var handtekinn ásamt fleiri frambjóðendum í maí. Þá ákvað Tikanovskaya að bjóða sig fram og naut mikillar hylli og eru margir sem telja að brögð hafi verið í tafli og að hún hafi fengið flest atkvæði. Vegna hótana stuttu eftir kosningarnar neyddist hún til að flýja land ásamt börnum sínum tveimur. Þau búa í dag í Litáen. Það er óhætt að segja að ógnarstjórn ríki í Hvíta-Rússlandi í dag. 

„Fólk er hrætt og óttaslegið. Vald Lukasjenkos byggist á ofbeldi, pyntingum og peningum olígarkanna sem hann hefur í vasanum en vilji þjóðarinnar hefur ekkert breyst. Hún vill breytingar, hún vill berjast og með hjálp alþjóðasamfélagsins er ég viss um að við náum árangri,“ segir hún. 

Lukasjenko hefur glatað ímynd sinni sem leiðtogi

Lukasjenko er að margra mati kominn út í horn og Tikanovskaya segir að hann geti ekki setið í embætti mikið lengur. „Fólkið sættir sig ekki lengur við Lukasjenko. Hann hefur glatað ímynd sinni sem öflugur maður og leiðtogi. Hann segir alltaf að við búum við stöðugleika, þurfum ekki aðstoð vesturlanda, við séum aðeins óhult með honum en fólk veit að landið getur vel þróast í aðrar áttir.“ Í Hvíta-Rússlandi búi harðduglegt fólk sem vilji gera sitt til að auka velmegun. „Við eigum dásamlegt land sem er án góðrar stjórnunar og því viljum við breyta.“

Mynd með færslu
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók á móti Tikanovskayu við stjórnarráðið í dag.  Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV