Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rjúkandi rústir tveimur dögum eftir hitamet

02.07.2021 - 00:52
In this aerial photo taken from a helicopter, structures destroyed by a wildfire are seen in Lytton, British Columbia, on Thursday, July 1, 2021. A wildfire that forced people to flee a small town in British Columbia that had set record high temperatures for Canada on three consecutive days burned out of control Thursday as relatives desperately sought information on evacuees. (Darryl Dyck/The Canadian Press via AP)
 Mynd: AP
Kanadíski bærinn Lytton sem komst í heimspressuna í vikunni fyrir að slá hvert hitametið á fætur öðru í Kanada hefur nú nánast allur orðið gróðureldum að bráð. Öllum 250 íbúum bæjarins var gert að rýma hann á miðvikudagskvöld áður en eldarnir teygðu sig yfir bæinn.

Miklar skemmdir urðu á mannvirkjum og stóðu um 90 prósent bæjarins í ljósum logum, hefur AFP fréttastofan eftir Brad Vis, þingmanni af svæðinu. 
Ofsafengin hitabylgja er um þessar mundir við vesturströnd Kanada og Bandaríkjanna. Hiti í bænum Lytton í Bresku Kólumbíu í Kanada náði mest 49,6 stigum á þriðjudag. Síðasta sólarhring hafa yfirvöldum borist rúmlega sextíu tilkynningar vegna gróðurelda í fylkinu, að sögn John Horgan, fylkisstjóra. 

Almannavarnir í Kanada vara við því að hitabylgjan eigi eftir að fara víðar um landið. Viðvaranir hafa verið gefnar út í Alberta, Saskatchewan, Manitoba, víða á norðvestanverðu landinu og í norðanverðu Ontario.