Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hvernig gefa skal auðlindir – sálmur um misskiptingu

Mynd: RÚV / RÚV

Hvernig gefa skal auðlindir – sálmur um misskiptingu

02.07.2021 - 13:38

Höfundar

„Það er ekkert nýtt að auðæfi og auðlindir þjóða séu gefnar yfirstétt undir þeim formerkjum að verið sé að leigja þær út,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson í pistli um endalok rómverska lýðveldisins, íslenskar auðlindir og söluna á Íslandsbanka.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Tímabilið frá 400 fyrir Krist og fram til um 270 fyrir Krist er tíminn þegar Rómverjar leggja undir sig lönd og borgir á Ítalíuskaganum. Á annarri öldinni fyrir Krist heldur sigurganga rómverska hersins síðan áfram, þeir heyja Púnverjastríðin þrjú við Karþagómenn og leggja smám saman undir sig öll lönd við Miðjarðarhaf. 

Bárður G. Halldórsson fjallar vel um þennan tíma og stéttaátökin sem brutust út meðal næstu kynslóða á eftir – sem að lokum leiddi til borgarastyrjaldarinnar um miðja fyrstu öld og síðan endaloka rómverska lýðveldisins árið 27 fyrir Krist – í inngangi að íslenskri þýðingu sinni úr latínu á Catalinsku ræðum Síserós. Ræður þessar flutti skörungurinn fyrir rómverska öldungaráðinu árið 63 fyrir Krist og í þeim sakaði hann Catalina um samsæri gegn lýðveldinu. 

Þessir landvinningar Rómverja opnuðu auðvitað nýja markaði fyrir þeim. Frá nýlendunum voru gríðarlegir fjármunir fluttir heim til Rómar og þessum nýju skattlöndum fylgdu mikil auðæfi og eignasöfnun. Bárður skrifar: „Misskipting auðs jókst. Þegar Rómverjar lögðu undir sig lönd var stærstur hluti þeirra tekinn beint undir ríkið og nefndist Acer Publicus eða almenningar og voru þeir leigðir út gegn mjög vægu gjaldi til valdastéttanna … Þegar fram liðu stundir hættu svo höfðingjar að greiða leigu og litu á þessi lönd sem eign sína, enda höfðu þeir þá haft þau að léni í margar kynslóðir.“

Gracchus-bræður myrtir

Einn þeirra sem tók síðan eftir því hvað þessi þróun í átt sívaxandi misskiptingar hafði hræðileg áhrif á lífskjör smábænda var alþýðuforinginn Tíberíus Gracchus. Eftir að hafa gengið vasklega fram í lokaorustunni um Karþagó kom hann heim, var kosinn alþýðuforingi árið 133 fyrir Krist og beitti sér um leið fyrir breytingu á jarðalögunum. Hann vildi láta skipta opinberu landi upp milli landlausra rómverskra ríkisborgara.

Hugmyndin var þó ekki að svipta allla stórjarðeigendur öllu landi heldur gerðu lög Tíberíusar Gracchusar ráð fyrir því að hver jarðeigandi og afkomendur hans mættu halda eftir stórum skikum. Þarna var því ekki um eignaupptöku að ræða heldur átti bókstaflega að gefa jarðeigendum opinbert land og einnig borga þeim bætur fyrir það land sem þeir misstu. Bárður skrifar: „Það er vart hægt að hugsa sér meiri sanngirni við frekjuhunda sem hrifsað höfðu opinbert land og slegið eign sinni á það og nytjað um margra áratuga skeið – jafnvel í margar kynslóðir, en það breytti engu fyrir þá því að græðgin er skynsemi og sanngirni miklu sterkari.“

Tíberíus Gracchus var að lokum myrtur uppi á Forum Romanum ásamt fylgismönnum sínum. Yngri bróðir hans Gaius Gracchus átti eftir að hljóta sömu örlög þegar hann ætlaði að halda áfram starfi Tíberíusar. Hann var enn þá meira stórhuga; vildi berjast fyrir lægra kornverði – auðugasti hluti riddararstéttarinnar réð allri kornverslun og flutningum og hélt kornverði eins háu og mögulegt var – og jafnframt breyta lögum um kjör embættismanna og rétta hlut öreigalýðsins í Róm. Morðin á þeim bræðrum settu af stað jarðhræringar í rómverskum stjórnmálum, ofbeldið jókst í sífellu og að lokum hélt Júlíus Caesar árið 49 fyrir Krist með her sinn yfir Rúbikon-fljót til átt Rómar, teningunum var kastað, borgarastyrjöld braust út og rómverska lýðveldið leið eins og áður sagði undir lok árið 27 fyrir Krist.

Stjórnarskránni verður ekki breytt

Það er sem sagt ekkert nýtt að auðæfi og auðlindir þjóða séu gefnar yfirstétt undir þeim formerkjum að verið sé að leigja þær út. Leigan sem greidd er fyrir afnotaréttinn er bara til málamynda en hugmyndin er að mjaka smám saman eignaréttinum til leigjendanna. Í Róm endaði þetta þannig að ríkustu 2% áttu um 90% eignanna. Ísland á kannski ekki margt sameiginlegt með Rómarveldi til forna. En það sama hefur gerst hér á landi. Stjórnmálastéttin gaf mestu auðlind þjóðarinnar – það er gert undir því yfirskini að verið sé að leigja út að henni afnotarétt, en markmiðið er augljóslega að færa smám saman eignarréttinn til þessarar elítu, enda er hann nú þegar byrjaður að erfast milli kynslóða, alveg eins og gerðist í Róm. 

Þess vegna mun það aldrei gerast að kveðið verði á um það í stjórnarskrá að eignarréttur yfir náttúruauðlindum Íslendinga liggi hjá þjóðinni sjálfri. Yfirvöld og elítur hér á landi munu koma í veg fyrir það. Stjórnmálamenn sem gleyma því árum saman að þeir eigi hlutabréf upp á margar milljónir munu halda áfram að segja eitt og gera annað í þessu máli, halda áfram að búa til falskar vonir um nýja stjórnarskrá og breytt samfélag, en það mun aldrei verða að veruleika. Vegna þess að hið ósagða markmið er hið þveröfuga, halda óbreyttu ástandi, tefja, muldra, bulla, spinna, teygja lopann, þreyta fólkið meðan ofurauðstétt sölsar smám saman undir sig hér um bil allt viðskiptalífið og byrjar að erfa hlunnindi sín til næstu kynslóða. 

Við lifum við algjörlega linnulausan fréttaflutning af stjórnmálum. Við drukknum í þessum fréttum. Það eru hins vegar bara nokkrir dagar og örfá mál sem raunverulega skipta máli á hverju kjörtímabili. Alþingi setur lög allan ársins hring um alls konar hluti, en þegar til kastanna kemur, þá snýst þetta batterí fyrst og fremst um að halda óbreyttu ástandi, útbýta auðæfum, fyrirtækjum og tækifærum til réttra aðila, tryggja það að riddarastéttin geti alltaf haldið kornverðinu eins háu og mögulegt er, og sjá til þess að ekkert óvænt geti raskað þessu huggulega jafnvægi. 

Og eins og í Róm til forna er status kvó einna helst varið með því að bera fyrir sig þjóðhollustu. Þeir sem mótmæla, berjast fyrir breytingum eins og Gracchus-bræður eða einfaldlega dirfast til þess að benda á hið augljósa eru kallaðir landráðamenn, sagðir vilja grafa undan stöðugleika og vera ógn við velferð þjóðarinnar. Þetta er allt saman eins og beint upp úr leikbókinni hans Cícerós. 

Samfélög rifna upp og niður

Aftur: Ísland á ekki margt sameiginlegt með Rómarveldi. En lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er að það er einmitt svona sem samfélög rifna í sundur, ekki til hægri og vinstri, heldur upp og niður, það er að segja þegar búið er til fyrirkomulag sem skapar svo ofsafengið ójafnvægi innan þeirra, ójafnvægi sem getur ekki annað en aukist vegna þess að það er bara ein stétt manna sem getur sogað til sín öll auðæfin, og jafnframt að það getur tekið margar kynslóðir fyrir áhrifin að koma almennilega fram. Ég tala hérna auðvitað í breiðum og dökkum strokum, ég átta mig alveg á því að til eru þingkonur og -menn sem raunverulega og af heilum hug vilja betra samfélag, en ég held sjálfur að þetta muni ekki breytast. Ég myndi aldrei veðja á það vegna þess að eins í Róm mun höfðingjastéttin leggjast gegn því af alefli. 

En – þú veist – það er náttúrulega engin stéttaskipting á Íslandi. Þetta vita allir, er það ekki? Reyndar eiga 70% íslensku þjóðarinnar ekki neitt, það er að segja eiga hér um bil engar eignir umfram skuldir, sjö af hverjum tíu eiga ekki neitt, meðan efnuðustu 30% heimilanna eiga 92% hreinna eigna. Fátækustu 10% heimilanna skulda um sjö milljónum meira en þau eiga.

Allur íslenskur valdastrúktúr snýst um peningana sem óbreytt ástand verndar. Þess vegna breytist aldrei neitt hérna nema útlendingar þvingi okkur til þess eða gegnum óhjákvæmilegar tæknibreytingar. Ég held að stjórnarskránni yrði satt best að segja ekki breytt þótt þrjú hundruð þúsund manns myndu samtímis sáldra mold yfir höfuð sér á Austurvelli. Og ef það yrði haldin önnur þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem rúmlega 80% þjóðarinnar myndu aftur lýsa því yfir að auðlindir eigi að vera þjóðareign, þá myndi einhver vel tengdur komast að þeirri niðurstöðu að blýantarnir í kjörklefanum hafi ekki verið nægilega vel yddaðir og atkvæðagreiðslan því samviskusamlega ógild af dómstólum. 

„Þetta er víst alveg solid“

Og talandi um að gefa auðlindir þá á ég enn þá eftir að hitta einn af nýju eigendum Íslandsbanka sem vissi ekki fyrir fram að bankinn væri undirverðlagður í útboðinu. Það er fátt dýrðlegra en hinn „frjálsi“ markaður. Fyrir nokkrum vikum hitti ég vin minn sem þá var nýkominn úr heimapartíi í Vesturbænum sem var troðfullt af mönnum í Patagonia-vestum yfir skyrtur. Hann sagði mér að þeir hefðu allir verið að tala um að safna kennitölum fyrir útboðið. Næst heyrði ég mann í heita pottinum segja að frændi hans hefði sagt honum að kaupa. „Hann segir að þetta sé víst alveg solid, að minnsta kosti 20% upp.“ Þriðja röddin sem ég heyrði var frá manni sem sagðist yfir höfuð forðast að eiga hlutabréf í íslensku viðskiptalífi en að í þessu tilfelli hafi verið algjörlega augljóst að verðið gæti bara farið upp. Þegar þessi orð eru skrifuð fór gengið á Íslandsbanka í 109 krónur á hlut fyrr í dag. Það er í kringum 38% hækkun á tveimur vikum. Alveg hreint svona líka yndislegt fyrir íslenska borgarastétt.

Ég er ekki hagfræðingur en get samt alveg skilið þær röksemdir að það sé engin ástæða til þess að ríkið eigi tvo stóra banka. En hvað sjálfan mig varðar – hafandi verið unglingur í menntaskóla þegar bankarnir gerðu út smjörgreidda menn í lakkskóm inn í skólabygginguna til að reyna að féfletta okkur í hádegishlénu áður en þeir lögðu þjóðfélagið síðan í rúst – þá er tilhugsunin um banka sem er gefinn réttu einkaaðilunum mun verri en ríkisbanki. Það er hins vegar óneitanlega mjög sniðugt að gera þetta þannig núna að þeir Íslendingar sem eiga milljón aflögu geti fengið tæpan 400.000 kall í ávöxtun á meðan þeir eru í veiðiferðinni. Þannig er búið að múta Patagonia-stéttinni til þess að vera samþykk þessum tilflutningi eigna frá almenningi. Hún samanstendur af sama fólki og auðgaðist í covid vegna þess að það þurfti ekki að mæta í vinnuna til að halda henni meðan fátækasta fólkið, ekki síst erlenda vinnuaflið sem heldur uppi lífskjörunum hér á landi, fékk að finna allhressilega hvar Davíð keypti ölið.  

Sic transit gloria mundi. 

Tengdar fréttir

Innlent

Af hverju eru allir og amma þeirra að kaupa hlutabréf?

Pistlar

Ekkert er útilokað í Leikskólalandi

Pistlar

Veröld sem var ekki

Pistlar

Sólon óskast! – Um misskiptingu, mótmæli og þannig