Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Grískur nýnasisti á flótta handtekinn

02.07.2021 - 03:20
epa05295170 A policeman (R) tries to pull far-right Golden Dawn party Christos Pappas (L) out of the parliament during a parliamentary debate on the draft bill for tax and pensions reforms in Athens, Greece, 08 May 2016. The Parliamentary debate on the
 Mynd: EPA - ANA-MPA
Grísku lögreglunni tókst loks að handtaka nýnasistann Christos Pappas, sem hefur verið á flótta síðan hann var dæmdur í þrettán ára fangelsi í október síðastliðnum. Hann var dæmdur ásamt rúmlega fimmtíu öðrum félögum Gullinnar dögunar í haust. Meðal sakarefna voru morð, árásir, ólögleg vopnaeign og stjórnun glæpasamtaka. 

Hinn sextugi Pappas lét sig hverfa daginn eftir að fangelsisdómurinn var kveiðnn upp. Sá kvittur komst á kreik að hann hafi flúið land, en hann var handtekinn í íbúð í miðborg Aþenu í gær. 

Að sögn Guardian herma heimildir að Pappas hafi ekki yfirgefið íbúðina síðan í október. Lögregla hóf að vakta íbúðina í síðustu viku eftir ábendingu um að þar hefðist strokufangi við. Auk Pappas var kona á sextugsaldri handtekin fyrir að hýsa hann. 

Guardian segir Pappas hafa verið helsta hugmyndasmið Gullinnar dögunar, og næstráðanda í samtökunum. Þau náðu nokkrum vinsældum sem stjórnmálahreyfing og mældist með tíu prósenta fylgi árið 2013. Fylgið dalaði eftir að glæpastarfsemi hreyfingarinnar varð öllum ljós við réttarhöldin, sem hófust árið 2015. 

Í dómnum segir að hreyfingin hafi notað hernaðarlega tilburði til þess að hvetja fylgjendur sína til að ráðast gegn innflytjendum og pólitískum andstæðingum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV