Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm sumarneglur á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Beabadoobee - Facebook

Fimm sumarneglur á föstudegi

02.07.2021 - 13:50

Höfundar

Það er sumar, sól og klúbbastemmning i Fimmunni þennan föstudag og boðið upp á ferska endurhljóðblöndun af Faithless, Texas x Wu-Tang Clan og Khruangbin. Annað að frétta eru ný stuðlög frá leynisveitinni Sault og krúttinu Beabadoobee.

Maceo Plex, Faithless - Insomnia 2021

Bandaríski pródúserinn og plötusnúðurinn Maceo Plex hefur endurhljóðblandað klúbbasleggjuna Insomnia sem Faithless gerði á því herrans ári 1995. Útgáfa hans af laginu, sem lenti í fimmta sæti á lista Mixmag yfir bestu danslög sögunnar, hefur heldur betur hitt í mark og heyrist nú á betri útvarpsstöðvum og dansgólfum heimsins.


Khruangbin - Pelota (Cut a Rug Mix)

Texas-sveitin frábæra Khruangbin hefur tilkynnt að hún hyggist gefa út endurhljóðblandaða útgáfu af plötu sinni Mordechai á tvöföldum vínil í byrjun ágúst. Í tilefni af því sendi hún Cut a Rug-mixið af laginu Pelota sem er endurhljóðblandað af enska tónlistarmanninum Will Holland sem kallar sig Quantic.


Texas x Wu-Tang Clan - Hi (UNKLE Reconstruction)

Það koma oft skemmtilega útgáfur á Plötubúðadeginum (Record Store Day) og það er óhætt að segja að samvinnuplata Texas x Wu-Tang Clan - Hi sé ein af þeim. Hún var gefin út í 1300 eintökum og inniheldur á B-hliðinni þessa frábæru endurhljóðblöndun James Lavelle sem kallar sig UNKLE í vinnunni.


Sault - London Gangs

Leynihljómsveitin Sault gaf á dögunum út þriðju breiðskífu sína á rétt rúmlega ári sem heitir 9. Eins og hinar tvær fær hún framúrskarandi dóma í tónlistarpressunni og inniheldur lagið London Gangs þar sem kveður við nýjan, fönkaðan og pönkaðan tón hjá sálarsveitinni.


Beabadoobee - Cologne

Beatrice Laus sem kallar sig Beabadoobee hefur sent frá sér enn einn poppsmellinn. Hann heitir Cologne og er að finna á nýjustu þröngskífu hennar. Hún er á rokkaðri nótunum í laginu og minnir okkur á það í myndbandinu að hún er gjörsamlega með tíunda áratuginn á heilanum.


Fimman á Spotify