Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fækkun stöðva ætti að þýða lægra eldsneytisverð

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Félag Íslenskra bifreiðaeigenda fagnar fyrirhugaðri fækkun bensínstöðva í Reykjavík. Með því eigi neytendur frekar heimtingu á lægra eldsneytisverði en talið er að önnur þjónusta stöðvanna færist annað.

Í lok júní var gengið frá sam­komu­lagi milli Reykja­vík­urborgar og olíu­fé­lag­anna um fækk­un eldsneyt­is­stöðva í borg­inni um alls fimmtán en tólf að þessu sinni. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir fækkunina vera í anda þess sem félagið hafi kallað eftir um árabil.

„Ef við berum þetta saman við þéttbýliskjarna í nágrannalöndum okkar, miklu stærri borgir, höfuðborgir Norðurlandanna og svo framvegis þá hefur enginn þéttbýliskjarni haft jafn mikla þéttni stöðvanets eins og Reykjavík.“ 

Runólfur segir neytendur hafa borgað brúsann fyrir að hafa stutt á milli stöðva. Eftir tilkomu Costco hafi verð lækkað á æ fleiri stöðvum og því sé þróunin eðlileg.

Ætlunin er að olíufélögin sjái um framtíðarskipulag lóðanna eða sölu þeirra en til stendur að á þeim rísi íbúðir með möguleika á atvinnuhúsnæði á jarðhæð.

Með fækkun stöðvanna fækkar jarðefniseldsneytisdælum um þriðjung í borginni en áætlað er að um fimm hundruð íbúðir komist fyrir á þeim tólf lóðum sem nú var samið um. 

Runólfur telur að bensíndælum muni ekki fækka svo mikið auk þess sem fjölgun rafbíla kalli á annars konar þjónustu. Hann telur að önnur þjónusta á borð við loftdælur, gassölu, sælgætissölu og þvottaplön færist annað.

„Við gerum ráð fyrir að eitthvað af þessu muni tengjast verslunarkjörnum í hverfunum. Þvottaplönum hefur fækkað stórlega og það er greinilega markviss áætlun í gangi varðandi það, því það er einhvern veginn þannig að það er alltaf verið að þrengja að öllu sem lítur að þjónustu við bíla.“