Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Átta liða úrslitin hefjast í dag

epa09309772 Swiss soccer fans react during the live broadcast of the UEFA EURO 2020 round of 16 soccer match between France and Switzerland at the public viewing zone Wood Ball Arena in Bulle, Switzerland, 28 June 2021.  EPA-EFE/CYRIL ZINGARO
 Mynd: EPA - RÚV

Átta liða úrslitin hefjast í dag

02.07.2021 - 09:10
Eftir tveggja daga pásu á Evrópumóti karla í fótbolta halda herlegheitin áfram í dag. 16-liða úrslitin voru sérstaklega fjörug og nú er komið að 8-liða úrslitum.

Fyrri tveir leikirnir verða spilaðir í dag og seinni tveir á morgun. 

Sviss og Spánn mætast klukkan fjögur á Krestovsky-vellinum í Sánkti Pétursborg í Rússlandi. Hann gengur einnig undir nafninu Gazprom Arena. Sviss hafnaði í þriðja sæti A-riðils á eftir Ítalíu og Wales sem datt út í 16-liða úrslitunum. Þar slógu Svisslendingar sjálfa heimsmeistara Frakka út eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni. Spánverjar spiluðu í E-riðli og höfnuðu í öðru sæti á eftir Svíum sem nú eru úr leik. Spánn lenti svo líka í framlengingu í 16-liða úrslitunum en hafði betur Króötum.

Spánverjar hafa haft góð tök á Svisslendingum í gegnum tíðina og aðeins tapað í eitt skipti af þeim 22 sem liðin hafa mæst, á HM 2010. Sigrarnir eru sextán og jafnteflin fimm. Þetta er í fyrsta sinn sem Sviss spilar í átta liða úrslitum EM en Spánverjar hafa þrisvar orðið Evrópumeistarar. 

Klukkan sjö mætast svo Ítalir og Belgar á Allianz-leikvanginum í München í Þýskalandi. Ítalía hefur unnið alla sína leiki til þessa, hafnaði í fyrsta sæti A-riðils og fékk ekki á sig mark. Þeir unnu svo Austurríki í framlengdum leik í 16-liða úrslitunum. Belgar fóru sömuleiðis taplausir í gegnum riðlakeppnina og unnu B-riðil. Þeir slógu svo ríkjandi Evrópumeistara Portúgals út í 16-liða úrslitunum með 1-0 sigri. 

Þetta er í fimmta sinn sem liðin mætast á stórmóti, Ítalir hafa unnið í þrjú skipti og einu sinni gerðu liðin jafntefli. Allir þessir leikir voru í riðlakeppni. Belgar hafa raunar aldrei spilað oftar gegn neinu liði á stórmóti án þess að vinna. Belgía náði sínum besta árangri á EM 1980 þegar liðið hafnaði í öðru sæti. Ítalir urðu Evrópumeistarar 1968. 

Á morgun verða svo seinni leikirnir tveir í 8-liða úrslitunum spilaðir. Þá mætast Tékkar og Danir annars vegar og Úkraínumenn og Englendingar hins vegar.