Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þakklát fyrir að enginn var heima

Aurskriða féll á tvö íbúðarhús við Laugaveg í Varmahlíð síðdegis 29. júní og tilviljun réð því að enginn var heima. Íbúar fengu fréttirnar frá vinum og vandamönnum sem höfðu strax samband og aðkoman, þegar heim var komið, var ekki góð.

Fengu fréttir frá vinum og vandamönnum

Alex Már Sigurbjörnsson og Bryndís Rut Haraldsdóttir búa í einu húsanna sem skriðan féll á við Laugaveg í Varmahlíð. Þau voru bæði stödd í vinnu þegar skilaboð tóku að berast frá vinum og vandamönnum um að húsið þeirra hefði orðið fyrir skriðu.

„Ég hélt þetta væri minna. Þetta var örlítið meira en ég bjóst við en þetta hefði getað verið verra og fór betur en á horfðist. Það var enginn heima í næsta húsi sem betur fer og maður bara þakkar fyrir það,“ segir Alex.

Töluvert tjón

Bryndís segir erfitt að segja til hversu mikið tjónið í raun er. „Það er drulla inni í gestaherberginu, það sprakk rúða þar og það er á kafi í drullu og eitthvað vatn er að renna. Við rétt svo horfðum á þetta þegar við hlupum inn og sóttum föt. Og það var vatn að renna inn í stofu.“

Vinnuvélar voru komnar á staðinn

Vinnutæki komu á jarðsigssvæðið í gær og stuttu síðar féll skriðan. Því er hægt að spyrja sig hvort skriðan hafi farið af stað vegna þessara vinnuvéla?

„Það er bara einn þáttur sem við erum að skoða, hvort að titringur frá beltagröfunni sem var komin í þessar aðgerðir hafi valdið því að syllan fór,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra.  

„Það sem við höfum mest verið að skoða og okkar stærstu áhyggjur eru af þessu gríðarlegu vatnsmagni sem er þarna á ferðinni sem er miklu meira en þeir reiknuðu með þegar þeir voru að skoða þetta,“ segir Stefán. Aðaláherslan sé lögð á að stöðva vatnsrennslið til að koma í veg fyrir frekari skriðuföll. Hitinn og leysingarnar sem hann hefur í för með sér séu áhyggjuefni.

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Risastórt gat er í götunni

Jarðsigið þekkt

Vitað hafði verið um nokkurt skeið að jarðsig væri í brekkunni fyrir aftan húsið við Laugaveg. Ekki hafði þó þótt ástæða til að rýma húsin. Alex segir að enginn hafi haft samband við þau formlega vegna þessarar hættu. „Ég hitti verktaka sem sagði mér frá þessu í óspurðum fréttum, þannig frétti ég af þessu jarðsigi fyrst,“ segir Alex.

„Ég sá alveg þetta jarðsig þarna fyrir ofan en maður bjóst ekki við þessu,“ segir Bryndís.

Öllu skiptir að enginn var heima

Skriðurnar féllu á meðan enginn íbúi var í húsunum tveimur og það eru þau Bryndís og Alex þakklátust fyrir.  „Mín fyrsta hugsun var hvað ég var rosalega fegin þegar ég frétti að fólkið hafi ekki verið heima hinum megin því börnin eru alltaf að leika sér úti í garði,“ segir Bryndís.

Alex tekur undir. „Númer 1,2 og 3 að það hafi enginn verið heima, hvorki á neðri hæðinni hjá okkur eða í næsta húsi. Það var bara gott að það voru allir í burtu.“