Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sala nýrra bíla jókst mjög í nýliðnum júnímánuði

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Rúmlega 122% fleiri nýir fólksbílar voru seldir í júní í ár samanborið við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Bílgreinasambandinu. Hluti nýorkubíla, rafmagns-, metan- og blendingsbíla, eykst enn.

Mest munar um kaup bílaleiga sem eignuðustu tæplega þúsund nýja bíla í júní í ár en í fyrra voru þeir 234. Það er ríflega þreföldun miðað við júní 2020 og heildaraukningin nemur tæpum 166 prósentum.

Rúmlega átjánhundruð nýir fólksbílar voru skráðir í júní og keyptu einstaklingar um sex hundruð þeirra. Enn eykst hlutdeild nýorkubíla sem telja nú rúm 65 af hundraði.

Alls hefur sala nýrra bíla aukist um rétt rúm 44% fyrstu sex mánuði ársins en í ár hafa selst 6.042 nýir fólksbílar samanborið við 4.193 á síðasta ári.