Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Heimsglugginn: Hitabylgja, COVID og fótboltaæði

Mynd: EPA / RÚV

Heimsglugginn: Hitabylgja, COVID og fótboltaæði

01.07.2021 - 09:58
Í Heimsglugganum á Morgunvaktinni á Rás 1 var rætt um hitabylgju í Norður-Ameríku, um áskorun til Kínverja um fjölmiðla- og tjáningarfrelsi sem ritstjórar Aftenposten, Dagens Nyheter, Helsingin Sanomat og Politiken birta í blöðum sínum í dag á 100 ára afmæli kínverska kommúnistaflokksins. Kórónuveirufaraldurinn í nokkrum löndum var einnig til umræðu. Í lokin var rætt um fótboltaæði sem runnið hefur á þær Evrópuþjóðir sem eftir standa í úrslitakeppni EM. 

Aldrei fleiri áhorfendur á landsleik í fótbolta 

Tuttugu milljónir horfðu á sjónvarpsútsendingu frá leik Englendinga og Þjóðverja, fleiri en áður hafa fylgst með leik enska landsliðsins. Englendingar eru súrir yfir því að fá ekki að fara til Rómaborgar til að horfa á leik Englands og Úkraínu á laugardag. Fótbolti í þeirri mynd sem við þekkjum núna er upprunninn í Englandi og landsmenn stæra sig af því að vera heimili fótboltans og syngja „Football is coming home“ eiginlega í hvert skipti sem þeir taka þátt í úrslitakeppni EM eða HM. Þó hefur Englendingum aðeins einu sinni tekist að vinna á stórmóti og það var 1966 þegar þeir unnu Vestur-Þjóðverja í úrslitum á Wembley. 

Misjafnt gengi Englendinga á stórmótum

Englendingar hafa ekki unnið Þjóðverja í úrslitakeppni á stórmóti áður. Þjóðverjar hafa hins vegar nokkrum sinnum slegið Englendinga út úr keppni. Það er því ekki að undra að enskir séu himinlifandi og fjölmiðlar bera þess svo sannarlega merki að fótboltaæði hefur gripið þjóðina.

Englendingar komust í undanúrslit á HM í Rússlandi 2018 en lentu þá í fjórða sæti. Það þarf ekki að segja Íslendingum hvernig þeim gekk á síðasta Evrópumóti, þar féllu enskir fyrir Íslendingum í 16-liða úrslitum. Fótboltaæði er raunar í Sviss og fleiri löndum sem eru meðal þeirra átta sem eru eftir í úrslitum Evrópukeppninnar. Hin löndin, sem ég hef ekki nefnt eru Belgía, Ítalía, Spánn, Tékkland og ekki síst Danmörk. Þar vonast fólk eftir að ævintýrið frá 1992 endurtaki sig þegar frændur okkar Danir urðu mjög óvænt Evrópumeistarar.

Æðið í Danmörku minnir á níunda áratuginn

Fjölmiðlar í Danmörku segja að fótboltaáhuginn núna minni mikið á þann anda sem ríkti um miðjan níunda áratuginn er danska landsliðið komst í úrslit á EM 1984 og HM 1986. Margir segja að landsliðið þá hafi verið betra en það sem vann EM 1992 og segja að þá hafi nánast eintómir snillingar verið í liðinu, menn á borð við Michael Laudrup, Preben Elkjær, Søren Busk, Søren Lærby, Klaus Berggreen, Jan Mölby, Jesper Olsen, Allan Simonsen, John Sivebæk og ekki síst fyrirliðinn Morten Olsen. Hann varð síðar landsliðsþjálfari.

Vonast eftir HC Andersen-ævintýri

Í gær var opnað nýtt safn í Óðinsvéum þar sem gestir geta kynnst ævintýraheimi HC Andersens. Danir vonast til að EM ljúki eins og ævintýrinu eftir Andersen þar sem Hans klaufi hreppir prinsessuna. Það blés ekki byrlega fyrir Dönum í upphafi móts. Þekktasta fótboltahetjan, Christian Eriksen, hné niður með hjartastopp og Danir töpuðu tveimur fyrstu leikjum sínum. En síðan hefur allt gengið í haginn. Eriksen er á batavegi, stórsigrar unnust á Rússum og Walesverjum og nú bíður leikur við Tékka.

Litli ljóti andarunginn

Í einu besta fótboltalagi allra tíma, Re-sepp-ten sem danska landsliðið söng 1986, er mikið um tilvísanir í HC Andersen-ævintýrin. Frank Arnsen forsöngvari byrjar á að syngja um litla ljóta andarungann en eins og allir sem þekkja ævintýrið vita endar hann sem fagur svanur. Danir vonast nú til að sú saga endurtaki sig og þeir komist í úrslitaleikinn á Wembley í Lundúnum 11. júlí og þeir geti á ný kyrjað: ,,Vi er røde, vi er hvide, vi står sammen, side om side."

Tengdar fréttir

Fótbolti

Danska markaregnið á EM reynist kostnaðarsamt

Veður

Á annað hundrað hitamet í Kanada

Stjórnmál

Pútín biður Rússa að hlusta á sérfræðinga

Erlent

130 manns hafa látist í hitabylgju í Kanada