Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fyrsti sláttur við Eyjafjörð

01.07.2021 - 10:35
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Göran Ólafsson Gros - RÚV
Eftir einstaklega kaldan maí og hret í júní er nú hálfgerð hitabylga á norðurlandi. Bændur við Eyjafjörð eru nú byrjaðir á fyrsta slætti sumarsins

Umhleypingar í veðri

Eftir miklar umhleypingar í veðri eru nú loks góðar aðstæður til sláttar og sprettan er ágæt. Róbert Fanndal Jósavinsson, bóndi á Litla Dunhaga í Hörgársveit segir að sprettan sé  allt í lagi.  „En auðvitað sé þetta mun seinna heldur en í meðalári, svona einhverjum hálfum mánuði - 3 vikum seinna.“  

Nú hefur verið hálfgerð hitabylgja um norðanvert landið en að sama skapi mikill vindur. Það hefur áhrif á sprettuna og heyskapinn. „Jú, það hefur mjög góð áhrif á sprettuna. Það er líka auðvelt að heyja, þetta er eiginlega í fyrsta skipti sem ég hef bundið hey án þess að hafa snúið því,“ segir Róbert.

Vatnavextir í kjölfar hlýinda

Bændur eru alvanir að takast á við áskoranir tengdar veðri. Vegna hlýinda síðustu daga hefur snjóa leyst skyndilega. Ár og lækir eru því full af vatni og Eyjafjarðará flæðir yfir bakka sína og inn á tún.

Halldór Örn Árnason er bústjóri á Grund í Eyjafjarðarsveit. „Það var tiltölulega kallt í maí og fyrri hlutann í júní og svo hlýnar og þá snareykst vatnið í ánum og við fáum vatn upp á velflest túnin og þurftum bara að heyja.“

Þegar spurt er að því hvernig er að heyja í roki segir Halldór: „Það getur reynst erfitt , maður reynir að hreyfa heyið sem minnst þegar það hvessir og svo bjóst ég ekki við gulri viðvörun en hún bættist hún svo nú verðum við bara að bíða.“