Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Andstaða virðist aukast gegn hinsegin fólki í Evrópu

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78. - Mynd: Kristín María / Aðsend mynd
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78, segir að aukning sé á andstöðu gagnvart sýnileika hinsegin fólks víða í Evrópu. Hún var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar fram kom að transfólk finni sérstaklega fyrir mótbyr.

Knattspyrnusamband Evrópu kom nýverið í veg fyrir að Allianz-leikvangurinn í München væri lýstur upp í regnbogalitum fyrir leik Þýskalands og Ungverjalands á EM karla í fótbolta.

Einnig lýsti forseti Tékklands andstyggð sinni á transfólki fyrir skemmstu, andstaðan sé því hávær.  „Já. Það er bara stutt svar, bara já. Ég tek undir með þér mér finnst við alltaf vera að sjá eitthvað nýtt þetta heldur bara áfram og áfram,“  segir Þorbjörg.

Þorbjörg kveður ungversk lög mjög alvarleg, en þau banna allan sýnileika og umræðu um hinsegin fólk sem mögulega gætu komið fyrir sjónir barna. Þótt margt bendi til að hugmyndir af þessu tagi eigi sér hljómgrunn í austur Evrópu en þó sé töluverð andstaða gegn þeim.

Orðræðan hafi orðið öðrum stjórnmálamönnum innblástur, sem hafi sýnt sig í Tékklandi og Póllandi. Hún segir andstöðu gegn transréttindum talda eðlilega i Bretlandi fyrir tilstilli haturssamtaka sem hafi fengið að koma sínum áróðri á framfæri og að hatursglæpir hafi aukist mjög þar í kjölfar þeirrar umræðu. 

Íhaldssamari pólítík

Þorbjörg kveðst álíta að stjórnvöld víða virðist vera að taka upp íhaldssama pólítík og séu að gefast upp vestrænum frjálslyndishugsunum. Hún segir þó að  Evrópusambandið sé að rannsaka lagasetninguna í Ungverjalandi.

Þorbjörg segir skilaboð sambandsins skýr og góð og kveðst vongóð um að það standi í lappirnar.  Mat hennar er að bakslag í réttindum hinsegin fólks í áðurgreindum löndum og jafnvel öðrum geti verið viðbragð við auknum sýnileika hinsegin og transfólks undanfarin ár.

Sérstaklega gæti aukinnar andstöðu gegn transfólki vegna þess að sýnileiki þess er nýrri og réttindindabarátta þess í fullum gangi. Þorbjörg segir að ekki séu mál í sama farvegi og hér á landi. Til að mynda geti fólk ekki breytt kynskráningu sinni.

Regnbogafáninnn merki samstöðu og frelsis

Athugasemd forseta Tékklands um transfólk segir Þorbjörg vera dæmigerða fyrir tilraunir til að reka fleyg í samstöðu hinsegin fólks með því að taka transfólk út fyrir sviga . Það sé mjög hættulegt.

Þorbjörg minnir á að regnbogafáninn sé tákn frelsis og samstöðu og því hefði UEFA óhikað átt að heimila borgaryfirvöldum í München að baða leikvanginn litum hans án þess að óttast hörð viðbrögð Ungverja vegna meintrar ögrunar.

„Regnboginn er ekki tákn um yfirgang vestursins líkt og stjórnvöld í Póllandi og Ungverjalandi halda fram,“ segir Þorbjörg sem segir þekkt að þegar réttindi þokast áfram geti orðið ákveðið bakslag. 

Hún kveður að greina mega enduróminn af hörðum viðhorfum gegn hinsegin fólki hér á landi, meðal annars í málfutningi Miðflokksins. Hann hafi reynt að standa í vegi fyrir að vernd fyrir intersex börn yrði bætt í lög um kynrænt sjálfræði fyrir síðustu jól.

Þorbjörg segir undarlegt að íslenskt stjórnmálafólk á Alþingi tali gegn þessum réttindum en svo sé komið að hún búist við slíkum málflutningi. Hún vonast þó til að slík orðræða nái ekki fótfestu hér.