Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir formann NEL kominn á hálan ís og dragi úr trausti

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu er á gráu svæði í umfjöllun um störf lögreglu í kringum Ásmundarsalarmálið að sögn formanns Lögreglufélags Reykjavíkur. Hann segir formann nefndarinnar hafa dregið úr trúverðugleika lögreglu í fjölmiðlum undanfarna daga. Hann segir einnig að verið sé að kanna réttarstöðu lögregluþjónanna sem komu að málinu í Ásmundarsal varðandi persónuvernd.

Arinbjörn Snorrason, formaður félagsins segir nefndina seilast ansi langt þegar tveggja manna tal sem sé aukaatriði í málinu sé gert að aðalatriði.

„Við teljum að þarna sé nefndin komin inn á grátt svæði varðandi persónuvernd.  Landsamband lögreglumanna er að kanna með réttarstöðu þessa einstaklinga og hver staða lögreglunnar sé varðandi hljóðupptöku lögreglumanna sem fara inn á þessar búkmyndavélar,“ sagði Arinbjörn í samtali við fréttastofu í dag.

Í skýrslu nefndarinnar eru einnig gerðar athugasemdir við dagbókarfærslu lögreglu sem birtist á aðfangadag og kemur fram að vísbendingar séu uppi um að færslan hafi verið efnislega röng. Í dagbókarfærslunni sagði að í Ásmundarsal hafi farið fram einkasamkvæmi sem reyndist að lokum sölusýning. Arinbjörn segir að fyrsta færsla í dagbók lögreglu sé í raun það sem kemur fram þegar lögregla mæti á vettvang, annað geti þó komið á daginn.

„Ég skil ekki tilgang nefndarinnar að gera eitthvað úr því. Hverra hagur væri það að setja þetta fram með þessum hætti, ég skil það ekki því miður,“

Arinbjörn gagnrýnir þá formann nefndarinnar, Skúla Þór Gunnsteinsson, en fram hefur komið að nefndin skoði nú hvort tilefni sé til þess að taka aftur upp fjögur mál eftir að í ljós kom að átt hafi verið við upptökur úr búkmyndavélum sem nefndin fékk sendar í tengslum við rannsókn á Ásmundarsalarmálinu. Hann segir Skúla þarna kominn á hálan ís. Hann hafi ekki send formlegt erindi til lögreglunnar vegna málsins og embættið heyrt gagnrýnina í gegnum fjölmiðla.

„Ég held að þarna sé formaður þessarar nefndar kominn á virkilega hálan ís. Að ýja að því að störf lögreglunnar séu með þessum hætti. Hann er formaður nefndar sem á að vekja traust til lögreglu. Þarna er hann að mínu mati og margra annara kominn alveg hinu megin. Fyrir helgina var hann að ýja að því að við værum að eiga við upptökur. Lögreglumenn skilja það eins og við séum með einhverja fölsun, það er af og frá,“ sagði Arinbjörn.

Upptökum úr búkmyndavélum sé komið fyrir í gagnagrunni sem ekki er unnt að eiga við. Nefndin fái send afrit af þeim gögnum. Arinbjörn segir að í sumum tilfellum, til að mynda þegar lögregla er við störf í miðbæ Reykjavíkur fari upptökur úr nokkrum málum saman inn á gagnagrunninn. Sé óskað eftir þeim gögnum sé afhent afrit þar sem einungis sá hluti upptökunnar sem viðkemur málinu sem umræðir birtist.

Andri Magnús Eysteinsson