Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Malbiki blæðir á Borgarfirði eystra

30.06.2021 - 14:18
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Nokkuð er um bikblæðingar úr malbiki á veginum í gegnum þorpið á Borgarfirði eystra. Slíkt er oft afleiðing mikilla hitasveifla á skömmum tíma en síðustu daga hefur hiti náð allt að 25 stigum á Austurlandi.

Að sögn Jóns Þórðarsonar, staðgengils sveitarstjóra Múlaþings, er að líkindum um að ræða nýlegt efni á vegarkafla sem gert var við á síðasta ári.

Ekki er vitað til þess að bikblæðingarnar hafi valdið skemmdum eða óhöppum en bílstjórar hafa orðið varir við þessar aðstæður þegar ekið er í gegnum þorpið. Einn lýsti því sem svo að helst minnti á að aka um á sprungnu dekki þegar farið var yfir blæðingarnar.

Blæðingar sem þessar eru algeng afleiðing þegar miklar hitasveiflur verða á skömmum tíma. Þar sem slíkar aðstæður einkenna oft íslenskt veðurfar eru bikblæðingar af þessu tagi algengari hér en víða annars staðar, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.

Einmuna veðurblíða hefur verið á Austurlandi síðustu daga þar sem hiti hefur náð allt að 26 stigum. Má draga þá ályktun að þessi mikli lofthiti sé orsakavaldur að þessum bikblæðingum sem sjá má í Bakkagerðisþorpi á Borgarfirði eystra.

Jón Agnar Ólason