Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kanna áhrif titrings frá vinnuvélum á jarðskriðið

30.06.2021 - 13:04
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Almannavarnanefnd kom saman á Sauðárkróki í morgun til að ræða skriðuföll Skagafirði í Varmahlíð í gær og í Tindastóli í nótt. Vinnuvélar voru á vettvangi þar sem skriðan féll í Varmahlíð í gær því til stóð að gera við sprungur í brekkunni.

Sjá einnig: Miklar leysingar fyrir norðan - Glerá kakóbrún

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn, var á fundi almannavarnanefndar í morgun og ræddi Anna Þorbjörg Jónasdóttir, fréttamaður, við hann í beinni útsendingu í hádegisfréttum. „Það er eitt af því sem við erum að skoða, hvort að titringur frá beltavélunum sem að voru að gera sig klárar á vettvangi hafi valdið því að þetta fór af stað. En það er hins vegar ljóst, eins og fram hefur komið, að það magn sem er af vatni og er á ferðinni þarna er umtalsvert mikið meira en menn gerðu ráð fyrir. Það er klárlega orsökin,“ segir Stefán Vagn. 

Hver verða næstu skref til að koma í veg fyrir að fleiri skriður falli? „Verkefni dagsins snýst um að finna vatnsæðina sem liggur þarna, grafa okkur niður á hana fyrir ofan byggðina og drena hana út og koma henni norður fyrir íbúasvæðið þannig að við getum þurrkað það upp.“

Niðurstaða fundar almannavarnanefndar í morgun var að rýma ekki fleiri hús, eins og staðan er núna. Þær rýmingar sem gripið hefur verið til verða áfram í gildi.