Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þrjú víti fóru forgörðum í Vestmannaeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Þrjú víti fóru forgörðum í Vestmannaeyjum

29.06.2021 - 20:05
Tveimur leikjum er lokið í efstu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Þrjár vítaspyrnur fóru forgörðum í Vestmannaeyjum þar sem ÍBV tapaði gegn Þrótti R. Í botnslag á Akureyri gerðu Þór/KA og Fylkir markalaust jafntefli.

Í Vestmannaeyjum tóku heimakonur í ÍBV á móti Þrótti Reykjavík. Liðin voru með jafnmörg stig fyrir leik kvöldsins en gestirnir með ögn betri markatölu. Gestirnir byrjuðu mun betur en fóru illa með færin sín. Það nýttu Eyjakonur sér sem skoruðu fyrst mark leiksins á 25. mínútu, en það gerði Delaney Baie Pridham og staðan því 1-0. 

Pridham fékk færi á að koma ÍBV í 2-0 á lokamínútu fyrir hálfleiks þegar ÍBV fékk víti. Íris Dögg Gunnarsdóttir, markvörður Þróttar R. gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði. Staðan var því ennþá 1-0 í hálfleik. 

Seinni hálfleikur var nýfarinn af stað þegar Linda Líf Boama jafnaði fyrir Þrótt R. og staðan 1-1. Um tíu mínútum fyrir leikslok var komið að víti númer tvö en nú var það Þróttur R. sem fékk víti. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir fór á punktinn en Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving varði í markinu, boltinn barst hins vegar aftur til Ólafar og nú skoraði hún og gestirnir komnir einu marki yfir. 

Í uppbótartíma var þriðja víti leiksins dæmt og nú fékk ÍBV tækifæri á að jafna. Liana Hinds fór á punktinn en vítið var lélegt og Íris Dögg átti ekki í neinum vandræðum með að verja. 

Lokatölur í eyjum urðu því 1-2 fyrir Þrótt R. 

Fátt um fína drætti á botninum

Það var alvöru botnslagur á Akureyri í kvöld. Heimakonur voru í 9. sæti fyrir leikinn og gestirnir voru einu sæti ofar. Bæði lið mættu þó með fullt sjálfstraust eftir sigurleiki í síðustu umferð. Skemmst er frá því að segja að fátt markvert gerðist í leiknum sem endaði með markalausu jafntefli.