Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skagaströnd og Skagabyggð funda um sameiningu

Myndir teknar með dróna.
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Sveitarfélögin Skagaströnd og Skagabyggð sem liggja norður af Blönduósi hittast á fundi í kvöld og ræða grundvöll fyrir sameiningu. Þau höfnuðu bæði sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu fyrr í sumar.

Sameining allra sveitarfélaga felld í íbúakosningu

Þann 5. júní var kosið um sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Tillagan var felld en úrslit kosninganna sýndu mismikinn vilja sveitarfélaganna fjögurra til sameiningar. Tillagan var samþykkt í Húnavatnshreppi og Blönduósbæ en felld í sveitarfélaginu Skagaströnd og Skagabyggð. Nú hafa þau tvö síðastnefndu ákveðið að setjast niður og kanna möguleika á sameiningu.

Hittast á fundi í kvöld

Halldór G. Ólafsson er oddviti sveitarstjórnar á Skagaströnd. „Báðar sveitastjórnir hafa fjallað um málið og það er búið að ákveða að sveitarstjórninar hittst í kvöld á Skagaströnd til að ákveða næstu skref,” segir Halldór. 

 Hver eru þá næstu skref, ef vel gengur?

„Það er í raun bara að ákveða hvort á að ganga til kosninga aftur til þess að athuga hvort vilji íbúanna í Skagabyggð og Skagaströnd er til staðar til sameiningar.”

Bjartsýnn á að sameining verði að veruleika

Nú voru það þessi tvö sveitarfélög sem höfnuðu sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnsýslu, ertu bjartýsnn á að þetta geti gengið?

„Já, það er nú þannig að Skagaströnd og Skagabyggð hafa átt í góðu samstarfi mjög lengi.” 

Hann segir ekki ljóst hvenær slíkar kosningar færu fram. „Það sé erfitt að ætla að ná þeim samhliða kosningum til Alþingis í haust. Þetta svo svolítið þröngur tímarammi gagnvart þeim formlegheitum sem þurfa að eiga sér stað.”