Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ráðast þarf í heildarendurbætur á Fossvogsskóla

29.06.2021 - 17:36
Fossvogsskóli
 Mynd: Fréttir
Ráðast þarf í ítarlegar heildarendurbætur á húsnæði Fossvogsskóla svo koma megi í veg fyrir raka og mygluvanda. Skipulagning næsta skólaárs er þgar hafin.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um ástand skólans ásamt tillögum til úrbóta. Mat skýrsluhöfunda er að hvorki skuli skipta verkinu upp í áfanga né fara í hluta þess.

Annað hvort þurfi að gera endurbætur á öllu húsnæðinu eða skipta þeim upp eftir álmum og hefja ekki kennslu fyrr en verkinu er lokið. Fram kemur að ásigkomulag skólabygginganna sýni glöggt að viðhald þeirra hafi verið takmarkað undanfarin ár og að margt sé ónýtt.

Rakaskemmdir og mygla leynast enn víða og því telja sérfræðingar Eflu að nauðsynlegt sé að vatnsverja og einangra útveggi, skipta um glugga í elstu húsunum, skipta um allt timbur í þökum og endurnýja loftræstingu.

Jafnframt þurfi að skoða steypu í kjallara álmunnar Meginlands, girða fyrir loftleka úr skriðkjöllurum ásamt því sem dælubrunnar verði fjarlægðir úr húsunum.

Einnig beri að fjarlægja allt rakaskemmt efni innandyra í Fossvogsskóla og endurnýja það. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að unnið hafi verið við undirbúning og hönnun framkvæmda við skólann frá því í maí.

Tillögur að skólastarfi næsta vetrar verði kynntar á morgun sem byggi á tillögum sem fram komu á fundum með foreldrum og starfsfólki skólans.