
Jacob Zuma í 15 mánaða fangelsi
Zuma er orðinn 79 ára. Hann neitaði margoft að mæta þegar rannsóknarnefndin átti að fjalla um meint fjármálamisferli meðan hann gegndi embætti forseta landsins. Á endanum vísaði nefndin máli hans til stjórnlagadómstólsins. Rannsókn á háttsemi hans hófst í maí. Hann er grunaður um brask, fjármálaspillingu, peningaþvætti og að að hafa þegið mútur af frönsku vopnafyrirtæki.
Zuma sakar rannsóknarnefndina um hlutdrægni og að ásakanir á hendur honum séu af pólitískum rótum runnar. Hann gegndi embætti forseta Suður-Afríku um tæplega níu ára skeið. Hann varð að segja af sér forsetaembættinu árið 2018 eftir að félagar hans í Afríska þjóðarráðinu höfðu fengið nóg af ásökunum á hendur honum fyrir fjármálaspillingu.
Í dómsorði stjórnlagadómstólsins er minnt á að í Suður-Afríku sé enginn hafinn yfir lögin. Jacob Zuma hefur fimm daga til að gefa sig fram. Ella verður lögreglunni falið að hafa uppi á honum og flytja í fangelsi.