Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Jacob Zuma í 15 mánaða fangelsi

29.06.2021 - 12:02
Former South African president Jacob Zuma looks on at the state commission that is probing wide-ranging allegations of corruption in government and state-owned companies in Johannesburg, Tuesday July 16, 2019. Zuma has denied corruption allegations against him, saying the charges are part of an international intelligence conspiracy that started more than 25 years ago to assassinate his character. (AP Photo)
 Mynd: AP
Stjórnlagadómstóll í Suður-Afríku dæmdi í dag Jacob Zuma, fyrrverandi forseta landsins, í fimmtán mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Refsinguna fær hann fyrir að sýna spillingardómnefnd í Jóhannesarborg vanvirðingu. Í dómsorði segir að enginn sé hafinn yfir lögin.

Zuma er orðinn 79 ára. Hann neitaði margoft að mæta þegar rannsóknarnefndin átti að fjalla um meint fjármálamisferli meðan hann gegndi embætti forseta landsins. Á endanum vísaði nefndin máli hans til stjórnlagadómstólsins. Rannsókn á háttsemi hans hófst í maí. Hann er grunaður um brask, fjármálaspillingu, peningaþvætti og að að hafa þegið mútur af frönsku vopnafyrirtæki. 

Zuma sakar rannsóknarnefndina um hlutdrægni og að ásakanir á hendur honum séu af pólitískum rótum runnar. Hann gegndi embætti forseta Suður-Afríku um tæplega níu ára skeið. Hann varð að segja af sér forsetaembættinu árið 2018 eftir að félagar hans í Afríska þjóðarráðinu höfðu fengið nóg af ásökunum á hendur honum fyrir fjármálaspillingu. 

Í dómsorði stjórnlagadómstólsins er minnt á að í Suður-Afríku sé enginn hafinn yfir lögin. Jacob Zuma hefur fimm daga til að gefa sig fram. Ella verður lögreglunni falið að hafa uppi á honum og flytja í fangelsi.