Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hvalshræinu leyft að rotna þar sem það liggur

29.06.2021 - 10:30
Hvalshræ í Hestfirði.
 Mynd: Björgvin Hilmarsson
Hvalshræi sem rekið hefur á land í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi verður leyft að rotna á náttúrulegan hátt þar sem það nú liggur, þetta kemur fram í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn fréttastofu.

Tilkynning um hræið barst til Lögreglunnar á Vestfjörðum frá vegfaranda 23. júní síðastliðinn og var hlutaðeigandi aðilum þá gert viðvart um málið. Fjöldi stofnana kemur að málum þegar að hval rekur á land og má þar nefna heilbrigðiseftirlit, lögreglu, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og eftir atvikum embætti dýralæknis og matvælastofnun. 

Heilbrigðisfulltrúar voru sendir til að kanna aðstæður sunnudaginn 27. júní og staðfestu að hræið væri talsvert niðurbrotið. Í svari umhverfisstofnunar segir að aðeins sé gripið til förgunaraðgerða ef þörf er á sökum ama, ónæðis, óhollustu, óþæginda, mengunar eða slysahættu.

Hræið sem um ræðir liggur í grýttri fjöru langt frá mannabyggðum og verður hræið látið vera þrátt fyrir að það lykti illa þegar nálægt er farið. Hvalshræ brotna niður í náttúrunni á um einu ári en hræið er komið langt í niðurbroti og býst Umhverfisstofnun við því að niðurbrotið taki einungis nokkrar vikur eða mánuði í viðbót.

Andri Magnús Eysteinsson