Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraun streymir í Nátthaga

29.06.2021 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Vísindamenn unnu í dag að því að setja upp mælitæki við eldgosið í Geldingadölum. Tækin eiga að fara undir hraunið þegar það rennur út úr Nátthaga. Það gæti gerst innan tveggja vikna.

 

Hraun mun renna yfir Suðurstrandarveg. Vísindamenn keppast við að setja upp mælitæki sem fara eiga undir hraunið.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur var á vettvangi í dag en lítið sást fyrir þoku. Unnið var að uppsetningu mælitækja. Vísindamenn vilja mæla þrýsting, átak hrauns á undirlagið, hitann í hrauninu og undir því og hvernig hitinn berst í jarðveginn undir hrauninu. Þannig verði unnt að áforma hvernig ljósleiðarar dugi til að takast á við kraftinn í gosinu og hversu djúpt hitinn kemst. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að stutta stund í gærkvöld hafi gígurinn verið með svolítinn uslagang eins og hann orðar það. Dregið hafi úr óróa á svæðinu. Nokkrum klukkustundum seinna jókst órói á ný.

Þorvaldur segir vangaveltur um að gosið væri hætt hafa horfið eins og dögg fyrir sólu. Menn hefðu reyndar verið búnir að sjá úr flugvél að enn væri kvika í gígnum.
Þorvaldur bendir á að á yfirborðinu sjáist aðeins um tuttugu prósent af heildarvirkni gossins. Hraunið sé komið á hreyfingu fyrir ofan nýju stífluna við Nátthaga. Greinilegt sé að göng séu neðar sem gígurinn dæli hraunkvikunni inn í og miðli því niður í Syðri-Meradali. Einnig dæli hann hrauni í gegnum Geldingadali og niður í Nátthaga. Fjöldi innri farvega er undir skorpunni að sögn Þorvaldar. Vökvakjarni sé inni í hrauninu. Hraunvökvi nái nánast yfir alla breiðuna í hverjum dal fyrir sig. Á yfirborðinu sé allt slétt og fellt en hraunið lyftist ekki ósvipað brauði sem sé að hefast.

 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV