Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hegða sér öðruvísi við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Ferðahegðun erlendra ferðamanna við gosstöðvarnar er öðruvísi en innlendra. Útlendingar eru gjarnari á að leggja í hann í slæmu veðri. Þúsundir fara að gosstöðvunum á degi hverjum og erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mikið, segir Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík.

Mæta í hvaða veðri sem er

„Já, við þykjumst merkja það að hér fjölgi útlendingum sem eru að koma á staðinn,“ segir Fannar. „Þeir koma eiginlega hingað í hvaða veðri sem er. Þeir fylgjast ekki endilega með veðurfréttum, eða tilkynningum um skyggni. En þeir eru komnir til þess að berja þetta augum og mæta kannski í verra veðri en Íslendingar, sem bíða eftir betra skyggni og betra veðri.

„Við sjáum hér aukinn fjölda erlendra ferðamanna. Við sjáum það líka á bílunum sem koma hingað. Til dæmis á tjaldstæðinu okkar er mikið um þessa litlu camper-bíla. Ferðamennirnir hafa þá bækistöð á tjaldstæðinu og fara svo gangandi á gosstöðvarnar.“

Minna að gera hjá björgunarsveitum

Hafa orðið einhver vandræði með þessa traffík, fyrir utan leitina um helgina?
„Nei, það hafa ekki verið vandræði núna. Það bar meira á þessu í vor þegar urðu meiðsl og óhöpp í brekkum. Þær hafa síðan verið lagfærðar. Við óttumst auðvitað að þegar fer að hausta og veturinn kemur að þá geti orðið meira um slík óhöpp, en núna hefur ekki borið mikið á því. Eins urðu margir magnþrota og þreyttir. En það er betra veður núna og fólk er betur undirbúið þannig að það er minna að gera hjá björgunarsveitum heldur en í vor og vetur,“ segir Fannar.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV