Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aflétting takmarkana hefur ekki mikil áhrif á verðbólgu

Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka telur að verðbólga hér á landi verði nokkuð mikil fram á mitt næsta ár. Nýbirtar tölur Hagstofunnar sýna 4,3% verðbólgu undanfarna tólf mánuði. 

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir neyslu almennings vera veigamikla orsök þess að áfallið vegna kórónuveirukreppunnar reyndist léttbærara en óttast var.

Aflétting samkomutakmarkana verði ekki til að drífa verðbólguna áfram. Neysla almennings færist til að mati Jóns þessa dagana, frá COVID-neyslunni, þar sem fólk var heima. Fólk hafi ferðast nánast eingöngu innanlands, pantað mat heim og smíðað sér palla við hús. 

„Hækkun íbúðaverðs skýrir til dæmis nærri helming til dæmis hækkunar vísitölunnar milli mánaða í þetta skiptið og svo hitt að það hafa verið framboðs- og framleiðsluhnökrar erlendis.“ 

Það hafi valdið hækkun á ýmsum hrávörum, á borð við timbur, íhluti í tæki og eldsneyti svo dæmi séu nefnd. Því vegi innfluttar verðhækkanir á móti styrkingu krónunnar þyngra en vonir hafa staðið til.

Jón Bjarki telur nokkuð í að verðbólgumarkmiðum Seðlabanka verði náð. Það geti þó breyst þegar frá líður.

Hann segir heimilin standa ágætlega, þau heimili sem ekki urðu fyrir barðinu á atvinnuleysi fái fleiri krónur í kassann en áður og hafi því efni á að gera vel við sig þegar samkomutakmarkanir eru um garð gengnar.

Því megi búast við að neyslan færist yfir í heimsóknir á veitingastaði, skemmtanir og ferðir til útlanda. 

„Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði í stórum dráttum á þessum slóðum alveg fram á haustið og fari þá hjaðna en verði ekki komin niður að markmiðum Seðlabankans um 2,5% fyrr en upp úr miðju næsta ári.“ 

Hann segir hækkun launa ekki endilega tengjast umsvifum innanlands. „Þetta er meira og minna múrað inn í kjarasamninga. Það er ekki verulegt launaskrið og þó að fólk geri betur við sig, þá er myndar það ekki verðbólguþrýsting.“

Jón Bjarki segir nokkuð í að verðbólga nálgist það stig sem var fyrir faraldurinn. Kannanir og álag á skuldabréfamarkaði sýni þó væntingar til að verðbólgan verði komin að markmiði Seðlabankans innan tíðar og haldist þar.

„Við ráðum við þetta verðbólgustig, meðan væntingar um varanlega hærri verðbólgu fara ekki að grafa um sig. Almennt er skilningur úti í samfélaginu á að þessi mikla verðbólga eigi sér skýringar. Þetta er tímabundinn framboðsskortur á íbúðamarkaði samfara óvenjuhagstæðum lánskjörum sem hefur ýtt undir eftirspurnina þar.“

Jón Bjarki segir að Ísland glími við svipaðan verðbólguvanda og margar nágrannaþjóðir og af sömu ástæðum, en hann telur horfurnar hér vera góðar.  

„Trúin á batann í hagkerfinu er orðinn nokkuð almenn og við sjáum bjartsýni mikla í könnunum, bæði meðal almennings og fyrirtækjanna.“