Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Takmarkalaust fjör á Reykjavík Fringe

Mynd: RVKfringe / RVKfringe

Takmarkalaust fjör á Reykjavík Fringe

28.06.2021 - 08:53

Höfundar

Jaðarlistahátíðin Reykjavík Fringe verður haldin 3.-11. júlí og samanstendur af litríku rófi viðburða.

Þetta er í fjórða sinn sem hátíðin er haldin hér á landi en alþjóðlegar sviðslistahátíðir eru haldnar um heim allan undir formerkjum Fringe. „Þetta er rosalega fjölbreytt og ég er mjög spennt. Atriði koma frá útlöndum til landsins sem var mikill höfuðverkur að skipuleggja, en hingað kemur fólk frá Rússlandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum og alls staðar að, við erum með 70 sýningar sem verða sýndar yfir 150 sinnum, 70 mismunandi verk, allt frá barnasýningum yfir í kabarett, drag, sirkus, leikhús og dans,“ segir Nanna Gunnars skipuleggjandi. 

Mikill stökkpallur

Að sögn Nönnu er hátíðin alþjóðleg í flestum skilningi, atriði fara flest fram á ensku auk þess sem atriði eru flutt inn og svo út úr landi ef allt gengur eftir. „Ég myndi segja að svona 90% fari fram á ensku, bæði erlend atriði sem koma hingað og svo er þetta svo mikill stökkpallur fyrir íslensku atriðin að fara erlendis. Það koma hátíðarhaldarar frá Noregi og Svíþjóð sem skoða atriðin, kynna sig og sjá aðra og vonandi bóka atriði til að fara erlendis og á þeirra hátíðir,“ segir Nanna. 

Grín og góð músík

Meðal atriða á hátíðinni eru Sauðatónar, tónverk sem Hafdís Bjarnadóttir flytur ásamt dúettinum Passepartout Duo, sem er sérsamin fyrir kindur. Þá verður hin breska Kimi Tayler með uppistand í uppistandsklúbbnum Secret Cellar.

Meðal sýningarstaða hátíðarinnar eru Iðnó, Mál og Menning, Bar ananas, Árbæjarsafn, Aðalstræti 2, Gallerí Fold og Tjarnarbíó. „Það er eitthvað í gangi út um allan bæ, mismunandi listform, hægt að sjá götulistaverk sem er verið að gera á Hótel Leifi Eiríkssyni, fara á uppistand á Secret Cellar, sjá tónleika í Máli og menningu. Mjög fjölbreytt, ódýrir miðar og mikil gleði í bænum,“ segir Nanna. 

Nánari upplýsingar um Reykjavík Fringe má finna hér